Enski boltinn

Jóhann Berg: Engar áhyggjur af því að spila tvisvar í viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson á blaðamannafundinum.
Jóhann Berg Guðmundsson á blaðamannafundinum. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson var fulltrúi leikmanna Burnley á blaðamannafundi fyrir seinni leik liðsins á móti Basaksehir í forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Jóhann Berg er reynslubolti Burnley-liðsins þegar kemur að því að spila í Evrópudeildinni en hann fór í tvígang í átta liða úrslit keppninnar með hollenska liðinu AZ Alkmaar.

Burnley er á heimavelli í kvöld og í ágætri stöðu eftir markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Tyrklandi.

„Stundum er það þannig hér í Englandi að lið vilja ekki spila í Evrópudeildinni. Við viljum það hinsvegar. Það verður skemmtilegra fyrir okkur að spila fleiri leiki og vonandi getum við verið í þessari keppni sem lengst,“ sagði Jóhann Berg. Heimasíða Burnley segir frá.

„Það er erfitt að komast í riðlakeppnina en það er okkar markmið. Við getum vonandi tekið stórt skref í áttina þangað með því að vinna Istanbul Basaksehir,“ sagði Jóhann Berg.





„Við vitum að það verður erfitt að komast í riðlakeppnina en við viljum komast þangað. Flestir leikmennirnir okkar hafa ekki spilað í Evrópukeppni og þeir vilja fá að reyna sig í þessari keppni,“ sagði Jóhann Berg.

„Það er bara jákvætt fyrir okkur að komast þangað. Þetta er skemmtileg keppni og á meðan við erum heilir og í formi þá hef ég engar áhyggjur af því að spila tvisvar í viku,“ sagði Jóhann Berg.

„Við vitum hvað við þurfum að gera. Um leið og við erum þéttir til baka þá erum við hættulegir og þá sérstaklega á Turf Moor. Það verður líka örugglega meiri sóknarbolti hjá okkur en í fyrri leiknum,“ sagði Jóhann Berg.

„Við vitum að við þurfum að skora mark til að komast áfram og því munum við örugglega sækja meira en þá. Svona er bara Evrópudeildin. Stundum þurfa lið að loka öllum leiðum í útileikjum og reyna að halda markinu hreinu,“ sagði Jóhann Berg.





„Mér fannst við standa okkur vel í Istanbul. Við sýndum fagmennsku og náðum þeim úrslitum sem við þurfum að fá. Þeir voru mikið með boltann en ógnuðu ekki mikið. Vonandi þurfum við ekki að verjast eins mikið á morgun. Við viljum sækja aðeins meira og skora einhver mörk,“ sagði Jóhann Berg.

„Þetta verður erfitt en við getum komist áfram,“ sagði Jóhann Berg. Burnley mætir væntanlega gríska liðinu Olympiakos í umspilinu takist liðinu að slá út Tyrkina í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×