Fótbolti

Rooney: Ekki kominn til Bandaríkjanna til að slaka á

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Wayne Rooney
Wayne Rooney vísir/getty
Wayne Rooney segir peninga ekki hafa ráðið för þegar hann ákvað að ganga til liðs við DC United í MLS deildinni fyrr í sumar og kveðst hann ætla sér stóra hluti með liðinu.

Þessi 32 ára gamli sóknarmaður er goðsögn í enskum fótbolta eftir frábæran þrettán ára feril hjá Man Utd en hann er markahæsti leikmaður í sögu félagsins auk þess að vera markahæsti landsliðsmaður Englands frá upphafi.

Eftir farsælan feril hjá Man Utd gekk Rooney til liðs við uppeldisfélagið Everton síðasta sumar og var þónokkuð gagnrýndur fyrir frammistöðu sína þar þó hann hafi skorað 10 mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Hann var svo látinn fara þegar Marco Silva tók við stjórnartaumunum hjá Everton og gekk í raðir DC United en Rooney fékk einnig gylliboð frá fjarlægum slóðum eins og Kína og Katar.

„Ég get skilið að fólki finnist pirrandi að sjá leikmenn koma hingað þegar þeir eiga lítið eftir af ferlinum. En fyrir mér vil ég sýna með frammistöðu minni að ég er ekki kominn hingað í frí til að slaka á,“ segir Rooney.

„Ég er kominn hingað til að vinna. Ég mun hafa góðan tíma til að slaka á og fara í frí þegar ég hætti að spila,“ segir Rooney í samtali við Washington Post.

Rooney er sannarlega byrjaður að láta að sér kveða í Ameríku en liðið er taplaust í síðustu fjórum leikjum og hefur unnið þrjá af þeim en liðið lyfti sér af botni deildarinnar með 4-1 sigri á Portland Timbers í nótt  þar sem Rooney hlóð í tvennu.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×