Erlent

Tyrkir hóta viðbrögðum verði þeir beittir frekari þvingunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ruhsar Pekcan, viðskiptaráðherra Tyrklands, segir að Tyrkir muni bregðast við innan reglna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Ruhsar Pekcan, viðskiptaráðherra Tyrklands, segir að Tyrkir muni bregðast við innan reglna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Vísir/AP
Yfirvöld Tyrklands segja að þeir muni bregðast við frekari viðskiptaþvingunum frá Bandaríkjunum vegna bandarísks prests sem er í haldi Tyrkja. Bandaríkin vöruðu í gær við frekari þvingunum. Í tísti sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að presturinn, sem heitir Andrew Brunson, væri gísl ríkisstjórnar Tyrklands og að Bandaríkin myndu ekki greiða fyrir lausn hans.

Í kjölfarið var gefið út að frekari þvingunum yrði beitt gegn Tyrklandi ef Brunson yrði ekki leystur úr haldi.

Andrew Brunson er sakaður um að hafa starfað fyrir Verkamannaflokk Kúrda (PKK) og hreyfingu klerksins Fethulla Ghulen en báðar hreyfingarnar eru bannaðar í Tyrklandi og skilgreindar sem hryðjuverkasamtök. Hann er einnig sakaður um njósnir. Hann var handtekinn í október 2016 og var hann upprunalega sakaður um að vera meðlimur í bæði PKK og hreyfingu Ghulen.

Ríkisstjórn Erdogan hefur ítrekað sakað Ghulen um að hafa skipulagt valdaránstilraun sem misheppnaðist um sumarið 2016. Ghulen er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum og hafa Tyrkir, án árangurs, reynt að fá hann framseldan til Tyrklands. Tugum þúsunda dómara, kennara, embættismanna hefur verið vikið úr starfi í Tyrklandi vegna ásakana um tengsli við Ghulen á undanförnum árum og hafa þúsundir verið fangelsaðir.

Ghulan neitar staðfastlega að hafa komið að valdaráninu.

Því hefur lengi verið haldið fram að Tyrkir hafi handtekin Brunson með því markmiði að skipta á honum og Ghulen. Erdogan stakk meðal annars upp á því í september í fyrra að hann væri tilbúinn til þess.

Meðal þess sem Bandaríkin hafa gert til að reyna að fá Brunson úr haldi er að fella niður ákærur gegn ellefu lífvörðum Erdogan sem sakaðir eru um að hafa gengið í skrokk á friðsömum mótmælendum í Washington DC þar sem Erdogan var á fundi með Trump.

Steve Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að von væri á nýjum þvingunum gegn Tyrklandi. Áður en hann tilkynnti það á fundi í Washington í gær sagði Trump að Tyrkir hefðu ekki reynst Bandaríkjunum góður vinir.

Ruhsar Pekcan, viðskiptaráðherra Tyrklands, segir að Tyrkir muni bregðast við innan reglna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.


Tengdar fréttir

Segir Bandaríkin stinga Tyrki í bakið

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, var harðorður í garð Bandaríkjanna á blaðamannafundi í dag þar sem hann sakaði ríkisstjórn Donald Trump um tvískinnung.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×