Slakur varnarleikur varð United að falli gegn Brighton

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lýsandi mynd fyrir leik United í dag.
Lýsandi mynd fyrir leik United í dag. Vísir/Getty
Manchester United steinlá fyrir Brighton á útivelli, 3-2, í ensku úrvalsdeildinni í dag. United fékk á sig þrjú mörk í fyrri hálfleik og varnarleikurinn var ekki til útflutnings.

Brighton komst verðskuldað yfir á 25. mínútu. Skyndisókn Brighton endaði með því að fyrirgjöf Solly March endaði hjá Glenn Murray sem kláraði færið vel.

Mínútu síðar var staðan orðinn 2-0. Shane Duffy skoraði þá sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni með þrumufleyg eftir að Eric Bailly gaf heimamönnum hornspyrnu.

United náði þó að svara fyrir sig því á 34. mínútu minnkaði Romelu Lukaku muninn í 2-1. Luke Shaw gerði vel og kom boltanum í hættusvæðið þar sem Lukaku skallaði hann í netið.

Heimamönnum voru þó ekki hættir í fyrri hálfleik því Brighton fékk vítaspyrnu mínútu fyrir hlé eftir ömurleg mistök Eric Bailly. Pascal Gross steig á punktinn og skoraði af öryggi.

Jose Mourinho gerði tvær breytingar í hálfleik, skellti þeim Jesse Lingard og Marcus Rashford inn á en lítið sem ekkert gerðist hjá United í síðari hálfleik fyrr en í uppbótartíma.

Þá fékk Marouane Fellaini vítaspyrnu eftir að hafa verið tekinn niður af Shane Duffy. Paul Pogba steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Lokatölur 3-2.

United er því með þrjú stig eftir tvo leiki en liðið vann góðan sigur á Leicester í fyrstu umferðinni. Frammistaðan í kvöld þó ekki vænleg til árangurs og varnarleikurinn slakur.

Þetta var fyrsti sigur Brighton á leiktíðinni eftir 2-0 tap gegn Watford í fyrstu umferðinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira