Erlent

Selja marga af frægustu leikmunum sögunnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flottur jakki, tvíd, tvíd.
Flottur jakki, tvíd, tvíd. Vísir/Getty
Búist er við því að jakki sem leikarinn Harrison Ford skartaði í Star Wars-kvikmyndinni The Empire Strikes Back muni seljast fyrir um eina milljón punda, rúmlega 137 milljónir króna, á uppboði sem fram fer í næsta mánuði.

Alls verða rúmlega 600 kvikmyndatengdir munir boðnir upp hjá fyrirtækinu Prop Store í Lundúnum. Meðal annarra muna má nefna svifbrettið sem Marty McFly flaug á í Back To The Future 2 og búninginn sem Johnny Depp klæddist í Edward Scissorhands.

Ef marka má frétt á vef breska ríkisútvarpsins þá munu aðdáendur Star Wars-myndabálksins ekki gera fýluferð á uppboðið. Hjálmar, geislasverð og fleiri geimmunir verða fáanlegir í Lundúnum og gert er ráð fyrir því að gripirnir seljist fyrir háar upphæðir.

Þessi komu Indiana Jones að góðum notum.Vísir/getty
Því til staðfestingar er vísað til geislabyssu, sem fyrrnefndur Ford notaði í myndinni Return of the Jedi, sem seldist fyrir næstum 60 milljónir króna á uppboði í júní síðastliðnum.

Jakkinn er þó ekki eini Ford-munurinn sem er falur. Áhugasamir munu geta boðið í svipuna sem hann sveiflaði í myndinni Indiana Jones and The Temple Of Doom, sem metin er á 10 milljónir króna. Þá má búast við því að hatturinn sem hvíldi á höfði Ford í The Raiders Of The Lost Ark seljist á allt að 42 milljónir króna.

Eins og heyra má geta kvikmyndaáhugamenn því nælt sér í marga af þekktustu leikmunum kvikmyndasögunnar. Uppboðið fer fram dagana 6 til 20 september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×