Íslenski boltinn

Hvað gerist eiginlega í hálfleik hjá Fjölnismönnum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Páll Snorrason þjálfari Fjölnis
Ólafur Páll Snorrason þjálfari Fjölnis vísir/bára
Fjölnismenn eru aðeins einu stigi frá fallsæti í Pepsi-deild karla eftir fjórtán umferðir en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum sínum í deildinni.

Það er einkum fimmtán mínútna kafli í upphafi síðari hálfleiks sem er að fara afar illa með Grafarvogspilta í sumar.

Fjölnismenn þurfa því örugglega að fara endurskoða hvað þeir gera í hálfleiknum því leikur liðsins hrynur eftir að þeir koma til baka eftir hálfleiksræðu Ólafs Páls Snorrasonar.

Markatala Fjölnis á 46. til 60. mínútu leikjanna er níu mörk í mínus samkvæmt tölfræði InStat. Fjölnismenn hafa ekki ennþá skorað á þessum kafla leikjanna og hafa jafnframt fengið á sig níu mörk.

Öll hin ellefu lið deildarinnar hafa skorað á þessum fimmtán mínútum seinni hálfleiks og ekkert annað lið í deildinni hefur fengið á sig fleiri en fjögur mörk á þessum hluta leiksins.

Markatala Fjölnis er því sjö mörkum verri en hjá næstversta liðinu sem er Keflavík.

Hálfleiksræður Ólafs H. Kristjánssonar hjá FH ganga mjög vel því FH er með markatöluna 8-1 á fyrstu fimmtán mínútum seinni hálfleiks. Markatalan hjá Stjörnunni er líka mjög góð eftir hálfleiksræður Rúnars Páls Sigmundssonar.

Markatala liðanna í Pepsi-deildinni fyrstu fimmtán mínútur í seinni hálfleik:

+7 FH (8-1)

+5 Stjarnan (7-2)

+2 Valur (2-0)

+1 ÍBV (4-3)

= Grindavík (2-2)

= KR (2-2)

-1 Breiðablik (2-3)

-1 KA (3-4)

-1 Víkingur (3-4)

-1 Fylkir (1-2)

-2  Keflavík (1-3)

-9 Fjölnir (0-9)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×