Enski boltinn

Gylfi lagði upp þegar Everton tapaði síðasta æfingaleiknum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gylfi og Keane fagna í dag
Gylfi og Keane fagna í dag vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson lék 86 mínútur þegar Everton fékk Valencia í heimsókn á Goodison Park í síðasta æfingaleik Everton áður en átökin í ensku úrvalsdeildinni hefjast um næstu helgi.

Everton stillti upp sínu sterkasta byrjunarliði fyrir utan það að Maarten Stekelenburg stóð í markinu í stað Jordan Pickford.

Rodrigo kom gestunum yfir snemma leiks en Cenk Tosun var fljótur að svara fyrir Everton. Rodrigo var hins vegar aftur á ferðinni fyrir Valencia á 22.mínútu og kom þeim í 1-2. Aftur var Everton ekki lengi að svara því Michael Keane jafnaði metin eftir hálftíma leik þegar hann stangaði hornspyrnu Gylfa í netið.

Danski miðjumaðurinn Daniel Wass, sem kom til Valencia frá Celta Vigo í sumar, tryggði Valencia svo sigur með marki stundarfjórðungi fyrir leikslok. Lokatölur 2-3.

Þetta var fimmta tap Everton í röð en liðið vann aðeins einn sigur á undirbúningstímabilinu. Sigurinn kom gegn austurríska neðrideildarliðinu Irdning þar sem Everton sló met og vann 22-0 sigur. Í kjölfarið kom jafntefli gegn Bury og svo töp gegn Lille (í vítaspyrnukeppni), Porto, Blackburn, Rennes og nú Valencia.

Everton heimsækir nýliða Wolves í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar eftir slétta viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×