Erlent

Vilja að Trump geti lokað tilteknum fjölmiðlum

Samúel Karl Ólason skrifar
Stuðningsmaður Trump öskrar á fjölmiðla.
Stuðningsmaður Trump öskrar á fjölmiðla. Vísir/AP
Stór hluti Repúblikana, eða 43 prósent, telja að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætti að „hafa heimild til að loka fjölmiðlum sem sýni slæma hegðun“, samkvæmt nýrri könnun Ipsos sem birt var í dag. Einungis 36 prósent Repúblikana voru ósammála því. Nærri því helmingur Repúblikana sem svöruðu könnuninni sögðu fjölmiðla vera óvin íbúa Bandaríkjanna, eins og Donald Trump, forseti, hefur ítrekað haldið fram.



Þegar kemur að Demókrötum segja tólf prósent þeirra og 21 prósent óháðra að forsetinn ætti að hafa áðurnefnda heimild. Sömuleiðis segja tólf prósent Demókrata og 26 prósent óháðra að fjölmiðlar séu óvinir Bandaríkjanna.

85 prósent svarenda sögðu frjáls fjölmiðla nauðsynlegu lýðræði í Bandaríkjunum. 57 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni segja fjölmiðla nauðsynlega til halda starfsmönnum ríkisstjórnarinnar heiðarlegum. Þá segjast 72 prósent vilja gera það auðveldara að höfða mál gegn blaðamönnum sem vísvitandi birta falskar upplýsingar.

Könnunin náði til 1003 Bandaríkjamanna og var hún tekin 3. til 6. ágúst. 323 sögðust vera Demókratar, 363 sögðust vera Repúblikanar og 207 sögðust vera óháðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×