Enski boltinn

7 sigrar og 27 mörk hjá Liverpool á undirbúningstímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Sturridge fagnar einu af sex mörkum sínum á undirbúningstímabilnu.
Daniel Sturridge fagnar einu af sex mörkum sínum á undirbúningstímabilnu. Vísir/Getty
Gekk kannski aðeins of vel hjá Liverpool-liðinu á undirbúningstímabilinu? Pressan er allavega komin á Liverpool liðið eftir hvern stórsigurinn á fætur öðrum í aðdraganda tímabilsins og það er búist við miklu af lærisveinum Jürgen Klopp í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Liverpool endaði stórglæsilegt undirbúningstímabil með 3-1 sigri á ítalska liðinu Torino á Anfield í gær. Liðið mætir síðan West Ham United í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um næstu helgi.

Þetta var sjöundi sigurleikur Liverpool á undirbúningstímabilinu þar sem liðið skoraði 27 mörk í 9 leikjum eða þrjú mörk að meðaltali í leik.

Í sumar hefur farið saman frábær frammistaða á markaðnum og frábær frammistaða í æfingaleikjunum. Það er því ekkert skrýtið að stuðningsmenn Liverpool dreymi um fyrsta meistaratitlinn í 29 ár (frá 1989-90).

Liverpool var mjög stórtækt á leikmannamarkaðnum í sumar og keypti fjóra mjög öfluga leikmenn. Þar á meðal voru tveir miðjumenn og markvörður en liðið þurfti vissulega á hjálp að halda í þessar stöður. Bestu fréttirnir voru eflaust kaupin á brasilíska markverðinum Alisson.

Það er eitt sem ætti kannski að hræða andstæðinga Liverpool mest. Liverpool skoraði nefnilega 27 mörk í æfingaleikjum sínum en Mohamed Salah skoraði aðeins tvö þeirra. Þeir ættu því að eiga hann inni. Salah skoraði 44 mörk á sínu fyrsta tímabili með Liverpool þar af 32 þeirra í ensku úrvalsdeildinni.

Daniel Sturridge minnti aftur á móti vel á sig á þessu undirbúningstímabili og var langmarkahæsti leikmaður Liverpool-liðsins með sex mörk. Hann skoraði í sigurleikjunum á Chester (2), Blackburn Rovers, Manchester United, Napoli og Torino.

Fyrsti þrír leikir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni eru á móti West Ham United, Crystal Palace og Brighton & Hove Albion. Það er því allt til alls hjá liðinu til að byrja tímabilið sterkt.



Leikir Liverpool á undirbúningstímabilinu:

7-0 sigur á Chester

3-2 sigur á Tranmere Rovers

0-0 jafntefli við Bury

2-0 sigur á Blackburn Rovers

3-1 tap fyrir Borussia Dortmund

2-1 sigur á Manchester City

4-1 sigur á Manchester United

5-0 sigur á Napoli

3-1 sigur á Torino

Samantekt:

9 leikir

7 sigrar

1 jafntefli

1 tap

Markatalan: +19

27 mörk skoruð

8 mörk fengin á sig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×