Erlent

Faldi myndavélar í sápubrúsum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maðurinn er sagður hafa kveikt á myndavélunum með fjarstýringu eftir að konurnar höfðu komið sér fyrir í sturtunni.
Maðurinn er sagður hafa kveikt á myndavélunum með fjarstýringu eftir að konurnar höfðu komið sér fyrir í sturtunni. vísir/getty
Nýsjálenskur karlmaður játaði í morgun að hafa fest á filmu sturtuferðir 34 kvenna á gistiheimili sínu. Upptökurnar fangaði hann með aðstoð falinna myndavéla sem hann hafði komið fyrir í sápubrúsum.

Maðurinn, sem hefur ekki verið nafngreindur til að vernda eiginkonu hans, er sagður hafa fangað alls 219 myndskeið af konum í sturtu á þriggja mánaða tímabili, frá desember í fyrra fram í febrúar á þessu ári.

Maðurinn hlóð myndskeiðunum upp á klámsíður og skrifaði hann stuttar lýsingar við mörg þeirra. Földu myndavélarnar fönguðu konurnar frá öxlum og niður á hné en í einhverju tilfellum á einnig að hafa sést í andlit kvennanna. Ekki er vitað á þessari stundu hvort maðurinn hafi keypt myndavélarnar á netinu eða útbúið þær sjálfur.

Þolendur mannsins voru flestar á þrítugsaldri. Lögreglunni hefur tekist að hafa uppi á flestum þeirra. Í tilkynningu frá konunum segjast þær vera í áfalli og mjög reiðar vegna málsins.

Þegar maðurinn var handtekinn í febrúar síðastliðnum á hann að hafa sagt við lögreglumenn að honum þætti athæfið spennandi. Það væri ekki síst áhættan og óttinn við það að vera gómaður sem hvatti hann áfram.

Nýsjálenska lögreglan hefur eytt myndbandsupptökunum. Dómur verður kveðinn upp yfir manninum í október en talið er að hann gæti fengið allt að 14 ára fangelsisdóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×