Enski boltinn

Útilokar ekki að Pogba komi við sögu í kvöld

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Heimsmeistarinn gæti spilað á Old Trafford í kvöld.
Heimsmeistarinn gæti spilað á Old Trafford í kvöld. vísir/getty
Jose Mourinho, stjóri Man Utd, mun taka ákvörðun um það hvort hann geti notað einhverja af þeim leikmönnum sem fengu lengra sumarfrí í kvöld þegar liðið fær Leicester í heimsókn í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar.

Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Paul Pogba, Ashley Young, Marouane Fellaini og Jesse Lingard.

Mourinho útilokar ekki að einhverjir þeirra muni koma við sögu í kvöld en þetta sagði hann á blaðamannafundi í gær.

„Paul mætti á mánudag. Hann var ánægður, glaður og tilbúinn að hefja störf. Hann lagði mikið á sig á mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Hann er einn af þeim leikmönnum sem ég þarf að ræða við um hvernig honum líður, líkamlega og andlega.“

„Ég þarf að eiga sama samtal við Ashley Young, Fellaini og Lingard til að vita hvort þeir séu tilbúnir að hjálpa okkur (í kvöld). Ef þeim líður þannig þá getur það gert mikið fyrir okkur. Kannski eru það 10 mínútur, kannski 20 og jafnvel að einhverjir geti spilað hálftíma,“ segir Mourinho.

„Pogba er í mjög, mjög góðu standi en að sjálfsögðu þarf ég að ræða við þá áður en við tökum ákvörðun. Þetta er mikilvægur leikur. Nú eru allir leikir mikilvægir, hvert stig skiptir máli og þá þurfum við að ná öllu út úr hverjum einasta leikmanni,“ segir Mourinho.



Leikur Man Utd og Leicester hefst klukkan 19:00 og er sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×