Viðskipti innlent

Vindur úr seglum innlendra hlutabréfa

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ástæða lækkunar á verði hlutabréfa hérlendis á þessu ári er meðal annars minni umsvif lífeyrissjóða á þeim markaði, kostnaðarhækkanir og kólnun í hagkerfinu.
Ástæða lækkunar á verði hlutabréfa hérlendis á þessu ári er meðal annars minni umsvif lífeyrissjóða á þeim markaði, kostnaðarhækkanir og kólnun í hagkerfinu. Vísir/Stefán
Minnkandi umsvif lífeyrissjóða í Kauphöllinni eru á meðal ástæðna að baki verðlækkunum á innlendum hlutabréfum.

Greint var frá því í Fréttablaðinu að hækkun úrvalsvísitölu Kauphallarinnar frá áramótum hafi gengið til baka. Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, segir þróunina á hlutabréfamarkaðinum athyglisverða.

„Líklegasta skýringin tengist flæði en innlendir fjárfestar hafa dregið umtalsvert úr umsvifum sínum á markaðinum,“ segir Valdimar. „Þá eru áhyggjur af kjarasamningsviðræðum í haust en það getur ekki útskýrt lækkanir á fyrirtækjum sem eru með hlutfallslega lágan launakostnað.“

Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, skýrir verðþróunina með svipuðum hætti

„Lífeyrissjóðirnir komu inn með fjármagn á sínum tíma en nú hafa þeir fengið nægju sína. Sem stendur ráðstafa sjóðirnir fjármagni sínu ýmist í lán til fasteignakaupa eða í fjárfestingar erlendis.“

Ný útlán lífeyrissjóða hafa aldrei verið meiri en þau námu ríflega 14,7 milljörðum í maí. Þá jukust erlendar eignir sjóðanna um þriðjung á milli maímánaða 2017 og 2018.

Ásgeir segir að verðlækkanirnar megi einnig rekja til þess að markaðurinn þykist greina teikn á lofti um að hagkerfið sé að hægja á sér. Einnig sjáist af uppgjörum að miklar launahækkanir hafi dregið úr framlegð margra félaga.

„Ég tel að það sé undirtónn í verðþróuninni ásamt háværum kröfum verkalýðsfélaga um áframhaldandi kauphækkanir þegar samningar losna í vetur.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×