Íslenski boltinn

Berglind með þrennu í bursti á grönnunum og Stjarnan kláraði Selfoss

Anton Ingi Leifsson skrifar
Berglind var frábær í kvöld.
Berglind var frábær í kvöld. vísir/ernir
Breiðablik gerði sér lítið fyrir og skellti grönnum sínum í HK/Víking 6-1 er liðið mættust í tólftu umferð Pepsi-deildar kvenna á Kópavogsvelli í kvöld.

Fyrsta markið kom á fjórðu mínútu er Berglind Björg Þorvalsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins og hún var aftur á ferðinni mínútu síðar.

Á sautjándu mínútu var staðan orðin 3-0 með marki Guðrúnar Arnardóttur og þremur mínútum síðar kom Kristín Dís Árnadóttir heimastúlkum í 4-0.

Þannig stóðu leikar þangað til á 53. mínútu er Berglind fullkomnaði þrennuna en fimm mínútum síðar skoraði Alexandra Jóhannsdóttir sjötta mark Breiðabliks.

Þórhildur Þórhallsdóttir minnkaði muninn fyrir gestina úr HK/Víking er tólf mínútur voru eftir og þar við sat. Lokatölur 6-1.

Blikarnir eru eftir leikinn á toppi deildarinnar með 33 stig, einu stigi meira en ríkjandi Íslandsmeistarar, Þór/KA. Það er ljóst að það verður hörð barátta um titilinn í kvennaflokki.

HK/Víkingur siglir lygnan sjó um miðja deild en nýliðarnir eru í sjötta sætinu með þrettán stig, fjórum stigum frá fallsæti.

Stjarnan er í fjórða sætinu með 22 stig eftir 3-0 sigur á Selfossi. Fyrstu tvö mörkin skoraði markamaskínan Harpa Þorsteinsdóttir; fyrst á 66. mínútu og annað markið kom tíu mínútum síðar.

Telma Hjaltalín Þrastardóttir innsiglaði svo sigur Stjörnunnar úr vítaspyrnu sex mínútum fyrir leikslok en skömmu áður hafði Harpa farið af velli. Lokatölur 3-0.

Selfoss er í sjöunda sætinu, þremur stigum frá fallsæti.

Úrslit og markaskorarar eru fengnir frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×