Viðskipti innlent

Hlutabréf í Eimskip hækkuðu um sextán prósent

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Systurfélag Samherja hefur eignast fjórðung í Eimskip.
Systurfélag Samherja hefur eignast fjórðung í Eimskip. Vísir(vilhelm
Sala bandaríska fjárfestingarfélagsins Yucaipa Companies á fjórðungshlut sínum í Eimskip til systurfélags Samherja þrýsti upp hlutabréfaverði í flutningafyrirtækinu, en bréfin hækkuðu alls um 15,9 prósent í verði í ríflega 11,4 milljarða króna viðskiptum í Kauphöllinni í gær.

Gengi hlutabréfa í Eimskip stóð í 233 krónum á hlut eftir lokun markaða í gær en það er tæpum sex prósentum hærra en gengið í viðskiptum Yucaipa og Samherja sem var 220 krónur á hlut.

Samherji Holding, sem er félag um erlenda starfsemi Samherja, keypti 25,3 prósenta hlut Yucaipa fyrir 11,1 milljarð króna en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins höfðu Fossar markaðir milligöngu um viðskiptin.

Hlutabréf Eimskips hafa fallið um hátt í 15 prósent í verði frá því í seinni hluta nóvember í fyrra þegar forsvarsmenn Yucaipa sögðust ætla að skoða sölu á eignarhlut sínum. Lægst fór gengið í 189 krónur á hlut í lok maí síðastliðins. Til samanburðar meta greinendur gengi bréfanna á bilinu 250 til 300 krónur á hlut.

Bandaríska fjárfestingarfélagið tók þátt í endurskipulagningu Eimskips í kjölfar fjármálahrunsins haustið 2008. Breytti félagið útistandandi veðtryggðum kröfum í hlutafé og fjárfesti jafnframt fyrir 15 milljónir evra í félaginu en við það eignaðist það 32 prósenta hlut. Árið 2012 seldi Yucaipa 7 prósenta hlut til Lífeyrissjóðs verslunarmanna og sama ár aðstoðaði félagið við skráningu hlutabréfa Eimskips á markað.




Tengdar fréttir

Bréf í Eimskip hækkað um 10 prósent í morgun

Sala bandaríska fjárfestingafélagsins Yucaipa Companies á fjórðungshlut sínum í Eimskipafélagi Íslands hefur leitt til um tíu prósenta hækkunar á verði á bréfum í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×