Erlent

Höfðu hendur í hári lýtalæknisins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Denis Furtado er sagður hafa ekið í gegnum veghlið þegar hann reyndi að stinga lögregluna af.
Denis Furtado er sagður hafa ekið í gegnum veghlið þegar hann reyndi að stinga lögregluna af. Vísir/AP
Lögreglan í Rio de Janeiro hefur handtekið þekktan lýtalækni eftir að einn skjólstæðinga hans lést um liðna helgi. Konan er sögð hafa veikst hratt eftir að læknirinn, Denis Furtado, hafði stækkað á henni afturendann á skurðstofu á heimili sínu. Konan var flutt á sjúkrahús þar sem hún lést örfáum klukkustundum eftir aðgerðina.

Brasilíska lögreglan fékk nafnlausa ábendingu um að til læknisins hefði sést í verslunarmiðstöð í borginni. Lögreglumenn voru sendir á vettvang og tókst þeim að hafa hendur í hári Furtado, sem gengur undir gælunafninu Dr. BumBum í heimalandinu.

Sjá einnig: Þekktur lýtalæknir í Brasilíu eftirlýstur vegna dauða konu sem lét stækka afturenda sinn

Móðir læknisins var einnig handtekin og birti lögreglan mynd af mæðginunum á Twitter-síðu sinni. Ekki er vitað til þess að hún tengist andlátinu með beinum hætti en hún er sögð hafa verið með lækninum þegar hann var handtekinn. Þá er kærasta mannsins, sem einnig er ritari hans, í gæsluvarðhaldi í tengslum við málið. Talið er að hún hafi aðstoðað við fegrunaraðgerðina.

Læknirinn er afar þekktur í Brasilíu en hann kemur reglulega fram í sjónvarpi og er með tæplega 650 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlinum Instagram. Í myndbandi sem hann birti á miðvikudag kvartaði hann undan umfjölluninni og sagði að honum þætti hann órétti beittur.

Brasilíska lýtalæknasambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem það tekur fram að Furtado sé ekki vottaður lýtalæknir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×