Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir 1-1 ÍBV | Jafntefli í sex stiga slagnum

Stefán Árni Pálsson á Extra-vellinum í Grafarvogi skrifar
vísir/anton brink
Fjölnir og ÍBV skildu jöfn á Extravellinum í Grafarvoginum í Pepsi-deild karla í dag. Leikurinn fór 1-1 en það voru Fjölnismenn sem komust yfir í fyrri hálfleiknum en Eyjamenn jöfnuðu úr víti í þeim síðari.

Fjölnismenn voru allt annað en sáttir við vítaspyrnudóminn og vildu meina að brotið hafi átt sér stað utan vítateigs. Gunnar Heiðar Þorvaldsson steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi en það var Birnir Snær Ingason sem skoraði mark Fjölnis í dag.

Af hverju fór leikurinn jafntefli ?

Fjölnismenn voru í raun betri aðilinn í leiknum en þeir gátu einfaldlega ekki lokað leiknum í stöðunni 1-0. Liðið fékk urmul af færum til að koma stöðunni í 2-0 en nýttu sér ekki fína stöður á vellinum. Í raun buðu þeir einfaldlega hættunni heim og það nýttu Eyjamenn sér.  

Hverjir stóðu upp úr?

Þeir Ægir Jarl og Birnir Snær voru virkilega sprækir í liði Fjölnis í dag og réðu Eyjamenn illa við þá. Í liði ÍBV var Sindri Snær traustur á miðjunni, Kaj Leo átti sína sprettir og Gunnar Heiðar Þorvaldsson var duglegur í framlínu liðsins.  

Hvað gekk illa?

Það vantaði að klára sóknirnar hjá báðum liðum og lykilsendingar í raun oft á tíðum lélegar hjá Fjölnismönnum og einnig hjá ÍBV. Þessi lið eru að berjast fyrir sæti sínu í deildinni og sást það í raun frekar vel á vellinum í dag. Gæðin ekki nægilega mikil.

Hvað er framundan?

Það sem er framundan hjá báðum liðum er mikil og ströng botnbarátta og bæði lið gera sér grein fyrir því. Það er í raun ekki nægilega gott fyrir bæði lið að fá aðeins eitt stig út úr þessum sex stiga leik en örlítil batamerki á leik Fjölnis.

Ólafur: Held að Ívar Orri hafi gert mistök
Ólafur Páll Snorrason þjálfari Fjölnisvísir/bára
„Eitt stig er alltaf eitt stig en þetta voru samt sem áður tvö töpuð fyrir okkur,“ segir Ólafur Páll Snorrason, þjálfari Fjölnis, eftir leikinn.

„Við áttum bara að vinna þennan leik og vorum töluvert sterkari aðilinn í sjötíu mínútur. Þeir keyrðu aðeins á okkur í seinni hálfleiknum en við erum kannski klaufar að vera ekki löngu búnir að drepa þennan leik.“

Ólafur segir að Fjölnisliðið hafi fengið nægilega mörg færi en Eyjamenn hafi oft varist vel inn í teig.

„Við höfum sýnt það í sumar að við getum spilað flottan fótbolta og völlurinn og veðrið leyfði það í dag, að láta boltann fljóta vel og hratt. Í dag nýttum við okkar styrkleika fram á við en ég er fúll og svekktur að missa þetta niður í jafntefli.“

Fjölnismenn voru vægast sagt pirraðir við dómara leiksins fyrir að hafa dæmt vítaspyrnu á þá í síðari hálfleiknum.

„Ég held því miður að Ívar Orri hafi gert mistök, þó ég sé ekki búinn að sjá þetta í sjónvarpi. Ég sá þetta ekki nægilega en það sem ég hef heyrt var að maðurinn var vel fyrir utan.“

Kristján: Erum yfirvegaðir með stöðuna„Við erum sáttir við stig eftir hvernig leikurinn spilaðist,“ segir Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, eftir niðurstöðuna í Grafarvoginum í dag.

„Að lenda undir og vinna okkur til baka var gott en með smá heppni hefðum við geta tekið þetta í dag. Við vorum stífir og þreyttir í byrjun og lengi að koma okkur í gang en seinni hálfleikur var fínn.“

Kristján segir að leikmenn liðsins hafi verið svekktir í hálfleik með frammistöðuna og náðu að bæta sig töluvert í þeim síðari.

„Við erum bara sáttir að hafa náð í stig eftir hörku Evrópuhlaup, ferðalög og annað. Við ákváðum að hafa ekki það sem neina afsökun og vera bara ferskir í kollinum.“

Hann segir að leikmenn liðsins og starfsfólk sé í raun nokkuð yfirvegaðir með stöðuna í deildinni.

„Ég var einmitt að reyna meta það í leiknum í dag. Við komum vel stemmdir eftir þessa Evrópuleiki en auðvitað myndum við vilja vera með miklu fleiri stig.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira