Innlent

Geta ekki velt hækkunum út í verðlagið

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Tilkynnt var um gjaldskrárbreytingarnar á Þingvöllum í lok júní, en í Vatnajökulsþjóðgarði síðasta fimmtudag.
Tilkynnt var um gjaldskrárbreytingarnar á Þingvöllum í lok júní, en í Vatnajökulsþjóðgarði síðasta fimmtudag. Vísir/Pjetur
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir gjaldskrárbreytingar á Þingvöllum og Vatnajökulsþjóðgarði vera stórfelldar skattahækkanir. Ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu, sem megi illa við svo skyndilegum hækkunum.

Tilkynnt var um gjaldskrárbreytingarnar á Þingvöllum í lok júní, en í Vatnajökulsþjóðgarði síðasta fimmtudag. Meðal breytinga í þeim síðarnefnda eru 100 króna hækkun þjónustugjalds vegna fólksbíla sem í þjóðgarðinn koma. Þá er nýjum gjaldflokkum bætt við fyrir stærri rútur, en 33-64 manna bílar greiða 6.400 krónur á sólarhring og 65-90 manna bílar 9 þúsund krónur, svo dæmi séu tekin. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir gjaldskrárbreytingarnar vonbrigði.



Telur rétt að bíða meðan samtal á sér stað


„Á vegum stjórnstöðvar ferðamála er nýhafið samstarf milli stjórnvalda, sveitarfélaganna og Samtaka ferðaþjónustunnar um heildargreiningu og hugsanlega framtíðarskipan á gjaldtöku af ferðaþjónustunni í heild sinni,“ segir Jóhannes.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF.
Þannig telur Jóhannes að rétt hefði verið að halda að sér höndum með hækkanir í þjóðgörðunum meðan þetta samtal átti sér stað. Í fréttatilkynningu frá Vatnajökulsþjóðgarði er bent á að fulltrúi ferðaþjónustunnar eigi áheyrnarfulltrúa í stjórn garðsins. Jóhannes segir þann fulltrúa ekki á vegum Samtaka ferðaþjónustunnar, sem ekkert samráð hafi verið haft við.

„Þetta er eitthvað sem okkur í Samtökum ferðaþjónustunnar var bara tilkynnt í tölvupósti núna fyrir nokkrum dögum,“ segir Jóhannes.

Erfiðara á háannatíma

Í tilkynningu frá þjóðgarðinum er bent á að Skaftafell sé ein af helstu náttúruperlum Íslands, mikið álag sé á svæðinu og fjöldi ferðamanna hafi aukist til muna. Þannig nálgist gestafjöldinn nú eina milljón ár hvert. Jóhannes ítrekar að samtökin séu ekki á móti þjónustugjöldum í sjálfu sér.

„Stóri vandinn við það hvernig þetta gerist núna er að þetta gerist á háannatíma. Það er búið að selja í ferðirnar á þessa staði, það er búið að gera ráð fyrir kostnaði vegna þess. Þegar hækkar á háannatíma þá þýðir það einfaldlega að fyrirtækin geta ekki brugðist við með því að velta svona út í verðlagið, eins og fólk heldur oft að það sé mjög auðvelt að gera. Það er einfaldlega ekki þannig,“ segir Jóhannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×