Innlent

Sveitaloftið í Þykkvabæ hjálpar við forritun

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fjöldi barna hefur dvalið í Þykkvabæ viku og viku í senn í sumar þar sem þau taka þátt í sumarbúðum í forritun. Mikil ánægja er hjá krökkunum sem eru á aldrinum tíu til tólf ára með sumarbúðirnar.

Sumarbúðirnar fara fram í íþróttahúsinu á staðnum á vegum Kóder sem eru samtök sem vilja kynna forritun fyrir ungt fólk. Hver hópur dvelur eina viku í Þykkvabæ.

„Við erum með námskeið hérna til að kynna krökkum upplýsingaheiminn þar sem við kennum þeim forritun og að byggja vélmenni. Þau eru búin að vera rosalega dugleg en við erum að blanda saman forritun við heildstæða sumarbúðaupplifun, þannig að þau eru að fá kynningu á þessum heimi á jákvæðan hátt“, segir Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, einn af kennurunum á námskeiðinu.

„Þau eru að læra allskonar, t.d. kubbaforritun sem er einfaldasta forritunartungumálið sem svo hjálpar þeim að skilja þegar þau fara út í dýpri forritun“, bætir Gunnhildur Fríða við.

Krakkarnir eru mjög ánægð með námskeiðið. En er ekkert mál fyrir krakka að læra forritun ?

„Það tekur smá tíma að læra það en síðan nær maður því bara“, segja þau Leó, Harri og Sylvía hæstánægð með námskeiðið í Þykkvabæ en öll stefna þau á að vinna við forritun þegar þau verða fullorðin.

En er gott að halda svona námskeið í Þykkvabæ ?

„Já, sveitaloftið hjálpar við forritun“, segir Gunnfríður hlægjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×