Fótbolti

Özil hættur í landsliðinu: Hraunar yfir forseta þýska sambandsins og kallar hann rasista

Anton Ingi Leifsson skrifar
Özil í leik á HM í sumar.
Özil í leik á HM í sumar. vísir/getty
Mesut Özil er hættur að spila fyrir þýska landsliðið í knattspyrnu. Þetta segir hann í yfirlýsingu á Twitter-reikningi sínum.

Özil og félagar í þýska landsliðinu komust ekki upp úr riðlinum á HM í Rússlandi og fengu þeir gífurlega gagnrýni fyrir það.

Enginn fékk líklega meiri gagnrýni en Özil sjálfur og segir hann í harðorða yfirlýsingu á Twitter-síðu sinni að nú sé komið nóg. Hann sé hættur að spila fyrir landsliðið.

„Eftir að ég tók mynd af mér með Erdogen, forseta, bað Joachim Löw mig um að koma fyrr til Berlínar til gefa út yfirlýsingu svo við gætum haldið áfram,” sagði Özil en mikið fjaðrafok var í Þýskalandi eftir áðurnefnda mynd.

„Þegar ég reyndi að útskýra þetta fyrir Grindel (innsk. blm. forseta þýska sambandsins); mína arfleið, forfeður og aðrar útskýringar bakvið þessa mynd þá var hann meira áhugasamur um að tala um pólitískar skoðanir hans og gera lítið úr minni skoðun.”

„Ég veit að hann vildi taka mig úr liðinu útaf myndinni en Löw og Oliver Bierhoff stóðu með mér. Í augum Grindel er ég Þjóðverji er við við vinnum en þegar við töpum þá er ég innflytjandi.”

„Þetta er þyngra en tárum taki og hefur tekið langan tíma að ákveða þetta; ég mun ekki spila fyrir þýska landsliðið þegar ég er með þá tilfinningu að þar sé rasismi og vanvirðing,” sagði Özil.

Hann fer um víðan völl í yfirlýsingu sinni sem er margar blaðsíður og tekur þar á meðal hart á nokkrum stuðningsmönnum Þýskalands sem voru ósvífnir í garð Özil eftir HM.

Alla yfirlýsinguna má lesa hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×