Fótbolti

Sænskur arftaki Alisson hjá Roma

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Robin Olsen varði mark Svía á HM í Rússlandi
Robin Olsen varði mark Svía á HM í Rússlandi vísir/getty
Ítalska úrvalsdeildarliðið AS Roma og danska úrvalsdeildarliðið FCK hafa komist að samkomulagi um kaupverð fyrir sænska landsliðsmarkvörðinn Robin Olsen og mun hann ganga til liðs við ítalska félagið í vikunni ef ekkert óvænt kemur upp.

Olsen er 28 ára gamall og er ætlað að fylla skarð Alisson Becker sem varð á dögunum dýrasti markvörður sögunnar þegar hann var seldur frá Roma til Liverpool.

Ítalskir fjölmiðlar segja kaupverðið vera tæpar 12 milljónir evra en FCK borgaði 600 þúsund evrur þegar félagið keypti Olsen frá gríska liðinu PAOK fyrir tveimur árum síðan.

Olsen mun gangast undir læknisskoðun í Róm í dag að því er segir í sænskum fjölmiðlum.

Hann mun því ekki standa á milli stanganna hjá FCK þegar liðið heimsækir Samsung völlinn í Garðabæ næstkomandi fimmtudag þar sem Stjarnan og FCK mætast í forkeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×