Enski boltinn

Sakar Sarri um að reyna að tæta Napoli-liðið í sundur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Maurizio Sarri vildi fleiri leikmenn frá Napoli.
Maurizio Sarri vildi fleiri leikmenn frá Napoli. vísir/getty
Maurizio Sarri, nýr knattspyrnustjóri Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, vildi fá fleiri leikmenn með sér frá Napoli en bara Jorginho sem Chelsea samdi við í síðustu viku.

Aurelio de Laurentiis, hinn málglaði forseti Napoli, segir að Sarri vildi tæta liðið í sundur og flytja fleiri leikmenn Napoli til Lundúna.

De Laurentiis gaf eftir Jorginho eftir að ræða við Carlo Ancelotti sem hann réð sem eftirmann Sarri hjá Napoli en Ancelotti hafði ekkert á móti því að láta Jorginho fara.

„Sarri vildi taka allt liðið mitt til Englands,“ segir De Laurentiis í viðtali við Sky Italia og bætir við að hann þurfti að segja Marina Granovskaia, yfirmanni knattspyrnumála hjá Chelsea, til syndanna.

„Sarri vildi Jorginho og ég gaf eftir þar eftir að tala við Ancelotti. Hann ætlar að veðja á Amadou Diawara og láta Marek Hamsik spila aftar á vellinum,“ segir De Laurentiis.

Sarri náði tvívegis öðru sætinu í Seríu A með Napoli á þremur leiktíðum en hann skilur ekki við De Laurentiis og Napoli í góðu.

„Ég hafði ekki húmor fyrir því þegar að hann sagði að við gerðum báðir mistök. Ég gerði engin mistök. Ég hafði aldrei rangt fyrir mér,“ segir Aurelio de Laurentiis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×