Erlent

Tugir féllu í suðurhluta Sýrlands

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Styrjöldin í Sýrlandi virðist engan enda ætla að taka.
Styrjöldin í Sýrlandi virðist engan enda ætla að taka. Vísir/Getty
Hið minnsta 38 féllu í suðurhluta Sýrlands í dag í því sem virðist hafa verið röð sjálfsmorðssprengjuárása. 

Árásirnar voru framkvæmdar í grennd við borgina Sweida, sem er á valdi stjórnarhersins. Talið er að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki standi að baki árásunum. Þau hafa þó ekki sent frá sér yfirlýsingu vegna árasanna, eins og þau gera alla jafna, og því liggur ekki enn fyrir hver ber ábyrgð á ódæðinu.

Að sögn Sýrlensku mannréttindavaktarinnar slösuðust hið minnsta 30 til viðbótar í árásunum, sem virðast hafa beinst gegn stjórnarher Bashar al-Assads Sýrlandsforseta. Sýrlenskir miðlar segja að stjórnarhermenn hafi náð að fella tvo hryðjuverkamenn áður en þeim tókst að sprengja sig í loft upp. Þá hefur verið greint frá þremur árásum uppreisnarmanna á þorp í grennd við Sweida. Engar tölur um mannfall í þeim árásum liggja fyrir.

Undanfarna daga og vikur hafa Assad-liðar staðið í hörðum bardögum við hópa víga- og uppreisnarmanna í suðurhluta landsins. Stjórnarherinn er nú kominn að landamærum Ísrael og er það í fyrsta sinn frá því að uppreisnin gegn Assad hófst árið 2011, sem stjórnarherinn stjórnar landamærunum.


Tengdar fréttir

Ísraelar skutu niður sýrlenska þotu

Í tilkynningu frá hernum segir að miklir bardagar eigi sér stað Sýrlandsmegin við landamæri ríkjanna og að þotunni hafi verið flogið tæpa tvo kílómetra inn í lofthelgi Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×