Innlent

Mannbjörg þegar eldur kom upp í bát á Vestfjarðamiðum

Birgir Olgeirsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Vísir/Ernir
Mannbjörg varð þegar eldur kom upp í strandveiðibát um átta sjómílur norður af Kögri í morgun. Skipstjóri bátsins hafði samband við Landhelgisgæsluna um klukkan 09:40 í morgun og tilkynnti að kviknað hefði í bátnum.

Nærstaddir bátar voru þegar beðnir um að halda þegar á staðinn auk þess sem björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kölluð út ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Skömmu síðar var skipverji bátsins sem var einn um borð kominn í björgunarbát en á þeirri stundu varð strandveiðibáturinn alelda. Klukkan 10:00 var búið að bjarga manninum um borð í annan strandveiðibát.

Björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði er á leið á vettvang og mun kanna möguleika á að draga flak bátsins í land.

Eldurinn kom upp í bátnum um 8 sjómílur norður af Kögri.Vísir/Loftmyndir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×