Innlent

Mal katta ekki bara merki um hamingju

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ef til vill gat ljósmyndarinn heyrt þennan singapúrska kött mala.
Ef til vill gat ljósmyndarinn heyrt þennan singapúrska kött mala. Vísir/afp
Þótt mal katta tákni venjulega að þeir séu hamingjusamir geta kettir líka malað til að tjá stress eða ótta þótt hið fyrstnefnda sé algengast. Þetta segir Gary Weitzman, dýralæknir og framkvæmdastjóri dýrahjálparsamtaka í San Francisco. „Við erum bara rétt að byrja að skilja þetta hljóð og það er mörgum spurningum enn ósvarað,“ sagði Weitzman.

BBC fjallaði ítarlega um mal katta í gær. Þar kom fram að þótt hegðun hunda hafi verið meira rannsökuð, enda viljugri þátttakendur, sér í lagi ef matur er í boði, hafi mal verið mikið rannsakað undanfarið.

Sam Watson, rannsakandi hjá bresku dýrahjálparsamtökunum RSPCA, sagði við BBC að enn væri lítið vitað um hvernig villikettir möluðu sín á milli. Þó væri vitað að þeir mali þegar þeir þrífa hver annan. „Þeir gætu malað til að segjast vilja eitthvað, eða til að biðja um hluta af mat annars. Margt svona hreinlega vitum við ekkert um,“ sagði Watson.

Weitzman benti sömuleiðis á að mal katta gæti verið heilandi, en því hefur verið haldið fram að hin tuttugu til 150 riða tíðni kattamals gæti örvað beinvöxt. „Mal á þessari tíðni samræmist þekktri tíðni sem stuðlar að heilun manneskja. Beinvöxtur örvast við 25 til 50 rið og húð við um hundrað rið samkvæmt rannsóknum,“ sagði Weitzman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×