Íslenski boltinn

Baldur: Gerðum heiðarlega tilraun

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Baldur í stuði fyrir leik í kvöld.
Baldur í stuði fyrir leik í kvöld. vísir/daníel
Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, var tiltölulega brattur í leikslok þrátt fyrir 2-0 tap gegn FC Kaupmannahöfn í fyrri leik liðanna í undankeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta.


„Við vorum bara býsna góðir í fyrri hálfleik. Vörðumst vel og byrjuðum af krafti. Fengum góð færi til að skora á þá á fyrstu tíu mínútunum og vorum ákveðnir að mæta af sama krafti í seinni,“ sagði Baldur en staðan var markalaus í hálfleik og Stjarnan búið að spila ansi vel.

Því miður gekk ekki sem skyldi í þeim seinni er gestirnir náðu fljótlega tveggja marka forystu.

„Við gefum þeim eiginlega mark. Hann (Kenan Kodro) stendur aleinn fyrir framan markið og það setur leikinn úr jafnvægi fyrir okkur. Eðlilega fór hausinn pínulítið. En við gerðum heiðarlega tilraun gegn frábæru liði og getum borið höfuðið hátt“

Maðurinn sem gerði gæfu muninn fyrir gestina heitir Viktor Fischer en hann var í HM-hóp Dana í sumar. Hann kom inn á í hálfleik sem og var nánast eins og einhver svindl-kall. Svo góður var hann en hann lagði upp eitt og skoraði svo annað mark liðsins.


„Það var skemmtilegt að eiga við þá og við ætluðum að stoppa hann en Fischer sýndi gæðin sín. Hann var kvikur á fótunum og áræðin og það er erfitt að eiga við svona menn. Sérstaklega þegar maður er orðin aðeins þreyttur,“ sagði Baldur sem horfir spenntur fram á veginn.


„Það er svekkjandi að tapa 2-0 á heimavelli en við getum svo sem sagt að þetta sé ekki alveg búið. Við förum allavega ekki til Danmerkur í vonlausri stöðu. Njótum þess að spila á Parken og reynum að gefa þeim leik.“

Seinni leikur liðanna fer fram eftir viku en í millitíðinni heimsækir Stjarnan lið Víkinga á sunnudaginn í Pepsi deildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×