Enski boltinn

Mourinho: Liverpool verður að vinna deildina

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. vísir/getty
Jose Mourinho, stjóri Man Utd, telur erkifjendurna í Liverpool verða að vinna til verðlauna á komandi leiktíð í kjölfar þess að hafa farið mikinn á leikmannamarkaðnum að undanförnu.

Liverpool mun tefla fram dýrasta markverði sögunnar, Alisson Becker, og dýrasta varnarmanni sögunnar, Virgil van Dijk og hafa að auki fengið sterka leikmenn til liðs við sig í þeim Naby Keita, Fabinho og Xherdan Shaqiri.

„Þegar lið sem komst í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu eyðir svona miklu eins og þeir eru að gera, bæði í sumar og í janúar, þá verða þeir að vinna deildina,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi eftir æfingaleik Man Utd og AC Milan áður en hann hélt áfram að ræða um Liverpool.

„Ef þú átt svona mikinn pening er betra að eyða honum en að geyma hann í bankanum. Þú verður að nota peninginn rétt og satt best að segja tel ég að þeir hafi gert það. Allir sem þeir hafa keypt eru gæðaleikmenn. Það er gott fyrir þá,“ segir Mourinho.

Hann skaut líka létt á kollega sinn hjá Liverpool, Jurgen Klopp. Þegar Man Utd keypti Paul Pogba á 80 milljónir punda fyrir tveimur árum lét Klopp í sér heyra og sagðist frekar myndu kveðja knattspyrnuna en að eyða slíkum fjárhæðum í leikmannakaup. Klopp viðurkenndi á dögunum að hann væri búinn að skipta um skoðun.

„Það er líka gaman að sjá að menn geti skipt um skoðun og að fólk breytist. Þetta er fyndið en mér finnst þetta allt í lagi,“ segir Mourinho.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×