Enski boltinn

Newcastle kaupir tvo sem voru á HM

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Fabian Schar
Fabian Schar vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið Newcastle United gekk frá kaupum á svissneska varnarmanninum Fabian Schar í gær og í dag verður japanski sóknarmaðurinn Yoshinori Muto kynntur til leiks á St.James´ Park.

Báðir leikmennirnir voru í eldlínunni á HM í Rússlandi í sumar. Muto spilaði einn leik af fjórum hjá Japan sem fór í 16-liða úrslit en Schar spilaði alla leiki Sviss í riðlakeppninni en var í leikbanni þegar liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum.

Schar kemur til Newcastle frá Deportivo La Coruna á Spáni en hann var með klásúlu í samningi sínum í kjölfar þess að Deportivo féll úr spænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð sem gerði Newcastle kleift að kaupa hann fyrir aðeins þrjár milljónir punda.

Þessi 26 ára gamli miðvörður gerir þriggja ára samning við Newcastle.

Muto kemur til Newcastle frá Mainz í Þýskalandi þar sem hann skoraði 8 mörk í 27 leikjum í Bundesligunni á síðustu leiktíð. 

Newcastle pungar út 9,5 milljónum punda fyrir þennan 26 ára gamla framherja sem hefur leikið með Mainz undanfarin þrjú ár.

Newcastle hefur leik í ensku úrvalsdeildinni laugardaginn 11.ágúst næstkomandi þegar Tottenham heimsækir St.James´ Park.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×