Fótbolti

Ekkert tilboð borist í Higuain sem er þó líklega á förum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gonzalo Higuaín hefur skorað 55 mörk í 105 leikjum fyrir Juve síðan hann kom frá Napoli 2016
Gonzalo Higuaín hefur skorað 55 mörk í 105 leikjum fyrir Juve síðan hann kom frá Napoli 2016 vísir/getty
Juventus er tilbúið að hlusta á tilboð í argentínska markahrókinn Gonzalo Higuain í kjölfar þess að Cristiano Ronaldo er genginn til liðs við ítalska stórveldið.

Talið er að Juventus muni þurfa að losa sig við einhverja leikmenn sem eru með stóra samninga og er Higuain talinn hvað líklegastur til að þurfa frá að hverfa en hann skoraði 23 mörk í 50 leikjum fyrir Juventus á síðustu leiktíð.

Framkvæmdastjóri Juventus, Giuseppe Marotta, gefur í skyn að Higuain sé á förum en á meðal sóknarmanna Juventus eru auk Ronaldo; Paulo Dybala, Mario Mandzukic og Douglas Costa svo einhverjir séu nefndir.

„Ég ætla ekki að neita því að í kjölfar af komu Cristiano Ronaldo erum við ansi þéttskipaðir af hágæða sóknarleikmönnum,“ segir Marotta í samtali við Sky.

Vitað er af áhuga frá Chelsea þar sem Maurizio Sarri, nýráðinn stjóri Chelsea, vill ólmur endurnýja kynnin við Higuain en þeir unnu áður saman hjá Napoli. Þá hefur Higuain einnig verið orðaður við AC Milan, þá mögulega í skiptum fyrir Leonardo Bonucci.

„Við munum meta stöðuna á Higuain en það hefur ekkert endanlegt tilboð borist frá Chelsea eða Milan.“

„Við lítum enn á hann sem mikilvægan leikmann fyrir okkur. Nú er augljóslega meiri samkeppni en hann er alvöru atvinnumaður sem við berum mikla virðingu fyrir. Við erum að ræða framtíð hans við hans fólk,“ segir Marotta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×