Enski boltinn

Pickford efstur á óskalista Chelsea

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jordan Pickford varði vítaspyrnu í vítaspyrnukeppni gegn Kólumbíu í 16-liða úrslitum HM.
Jordan Pickford varði vítaspyrnu í vítaspyrnukeppni gegn Kólumbíu í 16-liða úrslitum HM. víris/getty
Chelsea hefur áhuga á að kaupa Jordan Pickford frá Everton ef Thibaut Courtois verður seldur í sumar. Pickford var aðalmarkvörður Englendinga á HM í Rússlandi í sumar.

Það hefur mikið verið í umræðunni síðustu vikur að Courtois gæti yfirgefið Chelsea. Fjölskylda hans býr á Spáni og leikmaðurinn sjálfur vill fara þangað.

Nýr knattspyrnustjóri Chelsea, Maurizio Sarri, vill hins vegar tala við Belgann áður en ákvörðun verður tekin. Courtois á að snúa til baka úr sumarfríi eftir rúma viku.

Sky Sports greinir frá því í dag að hinn ungi Pickford sé efstur á óskalista Chelsea. Áður höfðu menn eins og Kasper Schmeichel hjá Leicester og Jack Butland hjá Stoke verið nefndir efstir í huga forráðamanna Chelsea en nýjustu heimildir Sky segja Pickford vera efsta nafn á lista.

Pickford varði mark Everton síðasta vetur og dugði frammistaða hans þar til þess að Gareth Southgate valdi hann sem aðalmarkvörð Englendinga á HM í Rússlandi. Þar komst England alla leið í undanúrslit, meðal annars vegna frammistöðu Pickford.

Everton mun hins vegar ekki selja hann svo léttilega. Félagið keypti Pickford frá Sunderland fyrir 30 milljónir punda síðasta sumar og var hann valinn leikmaður ársins hjá Everton, bæði af stuðningsmönnum og liðsfélögunum.


Tengdar fréttir

Courtois: Hjartað mitt er í Madrid

Thibaut Courtois er með efstu nöfnum á óskalista Real Madrid og allt bendir til þess að flutningar til Spánar séu ofarlega á óskalista belgíska markvarðarins.

Courtois: Ég gæti verið áfram

Thibaut Courtois, markvörður Chelsea, segir að hann hann gæti verið áfram hjá Chelsea á næstu leiktíð þrátt fyrir allar sögusagnirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×