Íslenski boltinn

Pétur hefur litlar áhyggjur af markaleysi: „Hefði verið betra að skora úr þessum færum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pétur tók við Val í haust.
Pétur tók við Val í haust. vísir/ernir
Valur hefur ekki unnið leik í Pepsi deild kvenna síðan 24. júní. Liðið tapaði í kvöld fyrir Stjörnunni í Garðabænum, 3-1. Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var að vonum ekki sérstaklega ánægður í leikslok.

„Mér fannst við fyrst og fremst ekki nýta færin okkar,“ sagði Pétur aðspurður hvað hafi farið úrskeiðis. Valur átti haug af uppbyggilegum sóknum, sérstaklega í seinni hálfleik, en náðu lítið að gera við þær.

„Stjarnan gerði það, fékk tvö færi í fyrri hálfleik úr skyndisóknum og skoruðu tvö mörk. Mér fannst við alveg fá tvö ef ekki þrjú dauðafæri til þess að jafna leikinn í fyrri hálfleik.“

Stjarnan skoraði mark strax í upphafi leiks þegar Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði eftir sendingu Telmu Hjaltalín Þrastardóttur. 

„Ég held það sé alveg sama hvenær maður fær á sig markið en þetta voru einföld mörk sem við fengum á okkur í dag. Þrjú einföld mörk, sérstaklega þriðja markið fannst mér mjög slakt hjá okkur.“

Valur hefur aðeins skorað tvö mörk í síðustu fimm leikjum. Þrátt fyrir það hefur Pétur engar sérstakar áhyggjur af sóknarleiknum.

„Ég hef engar áhyggjur svo sem. Það hefði verið betra að skora úr þessum færum en það kemur vonandi.“

Næsti leikur Vals er gegn Grindavík á þriðjudaginn. Hvað getur Pétur tekið úr þessum leik inn í þann næsta?

„Við erum að reyna allan leikinn, reynum að sækja allan leikinn til þess að jafna. Mér fannst stelpurnar gera það ágætlega, þær reyndu eins og þær gátu en því miður þá nýttum við ekki færin okkar,“ sagði Pétur Pétursson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×