Innlent

Útlendingastofnun fær fé frá hælisleitendum

Sylvía Hall skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Vísir
Allt að 120 milljónir króna verða settar í rekstur Útlendingastofunnar, en féð verður tekið af fjármagni sem ætlað var hælisleitendum. Í kvöldfréttum RÚV  segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra að þetta muni ekki verða til þess að þjónusta við hælisleitendur skerðist. 

Fjárlög þessa árs gerðu ráð fyrir 2,7 milljörðum króna í þjónustu við hælisleitendur hér á landi sem bíða úrlausnar sinna mála. Í gær tilkynnti dómsmálaráðherra að hún ætlaði að taka allt að 120 milljónir króna af upphæðinni og nota í rekstur Útlendingastofnunar.

Hún segir þetta fé gera stofnuninni kleift að klára úrvinnslu umsókna sem hafa komið á borð Útlendingastofnunar og flýta afgreiðslu mála, sem hún segir taka of langan tíma. Að sögn Sigríðar er efnismeðferð hjá stofnuninni yfir 200 dagar. 

Umsóknum frá ríkjum sem teljast ekki „örugg“ fer fjölgandi og því segir Sigríður stofnunina þurfa að búa yfir mannafla og þekkingu til að takast á við slík mál. Hún segir mikinn fjölda umsókna tengjast straumi flóttafólks í Evrópu og vonar að sú þróun sé tímabundin, en ítrekar að hún krefjist mikillar vinnu. 

Þrátt fyrir þessa skerðingu segir hún þjónustu við hælisleitendur lögbundna og því muni þetta ekki hafa teljandi áhrif, en þjónustan er meðal annars í gegnum samninga við sveitarfélög. Hún vonast til þetta verði til þess að hælisleitendur fái úrlausn mála fyrr og þannig verði hægt að stytta dvalartíma þeirra sem bíða eftir afgreiðslu umsókna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×