Umfjöllun og viðtöl: Víkingur 0-4 Stjarnan│Stjarnan á toppinn eftir afgerandi sigur

Ívar Kristinn Jasonarson á Víkingsvelli skrifar
Hilmar Árni fagnar.
Hilmar Árni fagnar. vísir/Bára


Stjarnan skaust upp í toppsæti Pepsi-deildar karla eftir stórsigur á Víkingum í Víkinni í kvöld. Víkingar sitja sem fastast í áttunda sæti deildarinnar. Leikurinn var liður í 14. umferð deildarinnar og endaði 4-0. Hilmar Árni Halldórsson skoraði tvö mörk í leiknum og er nú kominn með fimmtán mörk í fjórtán deildarleikjum og nálgast markamet deildarinnar óðfluga.

 

Stjörnumenn fengu draumabyrjun í kvöld þegar Baldur Sigurðsson skallaði boltann inn fyrir vörn Vikinga á Þorstein Má Ragnarsson sem skoraði með góðu skoti. Markið kom þegar einungis þrettán sekúndur voru liðnar af leiknum – ótrúleg staðreynd í ljósi þess að Vikingar byrjuðu með boltann.

 

Fyrri hálfleikurinn var einstefna að marki heimamanna og spiluðu Stjörnumenn sig oft á tíðum í gegnum vörn þeirra. Annað mark leiksins var af dýrari gerðinni. Eyjólfur Héðinsson átti þá þrumuskot fyrir utan teig upp í vinstra hornið – óverjandi fyrir Andreas Larsen í marki Víkinga. 

 

Á 38. mínútu leiksins komst Þorsteinn Már í góða stöðu inni í vítateig Víkinga. Halldór Smári Sigurðsson, fyrirliði Víkinga, var þá of seinn í tæklingu og felldi Þorstein. Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksnins, dæmdi réttilega vítaspyrnu sem Hilmar Árni skoraði auðveldlega úr. Staðan var því 3-0 í leikhléi.

 

Garðbæingar héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og uppskáru mark strax í upphafi hans. Eyjólfur Héðinsson átti þá góða sendingu inn í teiginn á Baldur Sigurðsson sem lagði boltann óeigingjarnt fyrir Hilmar Árna og var eftileikurinn auðveldur.

 

Eftir fjórða markið voru úrslitin orðin ljós og leikurinn datt örlítið niður. Stjörnumenn voru alltaf líklegri til að bæta í en Víkingar að minnka muninn en fleiri mörk voru ekki skoruð og leiknum lauk því 4-0.

 

Af hverju vann Stjarnan? 

Stjörnumenn stjórnuðu leiknum allt frá byrjun og virtust andlausir Víkingar hafa litla trú á verkefninu. Fyrri hálfleikurinn var einstefna að marki Víkinga. Í fjarveru Sölva Geirs Ottesen, sem meiddist í síðasta leik, áttu Vikingar í mestu vandræðum í vörninni. Stjörnumenn eru með mikil gæði fram á við og hefðu auðveldlega getað unnið stærri sigur í kvöld. 

 

Hverjir stóðu upp úr?

Hilmar Árni stjórnaði sóknarleik Garðbæingar af mikilli snilld sem fyrr. Guðjón Baldvinsson og Eyjólfur Héðinsson voru sífellt ógnandi ásamt Þorsteini Má Ragnarssyni.

Allt Víkingssliðið átti slæman dag í dag. Örvar Eggertsson kom inn á í síðari hálfleik og virtist vera sá eini með vilja til að gera eitthvað, en það var lítið sem hann gat gert upp á eigin spýtur.

 

Hvað gekk illa?

Víkingar sköpuðu sér varla færi í leiknum og áttu erfitt með að halda boltanum. Þeir reyndu oft á tíðum langar sendingar á Geoffrey Castillion sem skiluðu litlu.

Ef það er hægt að setja eitthvað út á leik gestanna er það að þeir hefðu mátt nýta færin sín betur. Þegar þeir voru komnir með örugga forystu reyndu þeir oft of erfiða hluti, en þeir voru með unninn leik í höndunum og kom það því ekki að sök.

 

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Stjörnunnar er gegn FC Köbenhavn í forkeppni Evrópudeildarinnar. Fer sá leikur fram fimmtudaginn 2. ágúst í Kaupmannahöfn. Sex dögum síðar taka þeir svo á móti Valsmönnum í deildinni.

Næsti deildarleikur Víkinga er útileikur gegn Grindavík þriðjudaginn 7. ágúst.

 

Logi: Komum til leiks eins og lafhræddir byrjendur

Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, var að vonum vonsvikinn eftir tapið í kvöld. „Við komum til leiks eins og lafhræddir byrjendur og fáum á okkur mark strax í upphafi. Þá hrynja plönin pínulítið en það er óafsakanlegt að fá á sig þrjú mörk í kjölfarið. Ég skil hreinlega ekki þessa framlegð hjá leikmönnunum í dag,“ sagði Logi. 

 

„Það er ekki hægt að draga neitt fram sem gekk vel. Við vinnum ekki tæklingar, við erum of seinir í boltann, við hittum ekki á samherja. Það var bara allt að.“

 

Sölvi Geir Ottesen, varnarmaður Víkinga, meiddist í síðasta leik og var ekki með í kvöld. Það var greinilegt að Víkingar söknuðu hans. „Við erum með ágætis mannskap samt sem áður og við eigum að gera betur en þetta. Við höfum spilað vel án þessara manna en það gekk ekki í dag.“

 

Logi setti Geoffrey Castillion, sem kom til liðsins á láni frá FH í gær, beint í byrjunarliðið. Hvernig fannst honum það hafa tekist til?

 

„Þetta var því miður ekki að ganga, eins og hjá liðinu í heild sinni,“ sagði Logi sem á ekki von á því að Víkingar næli sér í frekari liðsstyrk í leikmannaglugganum. „Við verðum bara að vinna úr þessum vandamálum.“

 

„Við erum núna búnir að tapa fyrir efstu tveimur liðunum og fá á okkur fjögur mörk í hvorum leik. Við verðum að girða okkur í brók og gera betur. Ef við spilum ekki vörn þá getum við ekki unnið leiki,“ sagði Logi að lokum.

 

Rúnar Páll: Hrikalega stoltur af þessum drengjum

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með spilamennsku liðsins í kvöld. „Við spiluðum feykilega vel og vorum hrikalega öflugir. Ég er hrikalega stoltur af þessum drengjum.“

 

„Við unnum boltann hátt uppi á vellinum og vorum fljótir að pressa þegar við misstum boltann. Þeir komust varla yfir miðju í fyrri hálfleik. Svo skoruðum við fjögur frábær mörk í þessum leik,“ sagði Rúnar Páll. 

 

Stjarnan situr nú á toppi deildarinnar með jafnmörg stig og Valur sem á leik til góða. Hefur Rúnar Páll trú á að lið hans endi á toppnum í lok sumars?

 

„Það er alltaf markmið góðra liða, við reynum alltaf að vinna allt. Það er þó mikið eftir af þessu móti og það þarf allt að ganga upp til þess að við komumst alla leið.“

 

Hilmar Árni: Vorum mættir frá fyrstu mínútu

Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar, var sáttur með sigurinn í kvöld. „Við vorum mættir frá fyrstu mínútu. Við vorum tilbúnir í alla baráttu og alla seinni bolta.“

 

Fyrir leikinn í dag höfðu Garðbæingar tapað þremur leikjum í röð án þess að skora mark, gegn KR í deildinni og tveimur Evrópuleikjum. „Við höfðum nú engar áhyggjur. Við erum þannig lið að við getum alltaf skorað. Við gengum í gegnum þrjá erfiða leiki en við höfum alltaf trú að því að við getum skorað mörk og haldið hreinu,“ sagði Hilmar Árni.

 

Hilmar skoraði tvö mörk í leiknum í kvöld og nálgast nú markametið fræga í deildinni. Hann þarf núna fjögur mörk til að jafna metið. Hann er þó lítið að velta sér upp úr því. „Það eru aðallega liðsfélagarnir sem eru að fíflast aðeins í manni á æfingum. Þetta er bara skemmtilegur bónus en það sem skiptir mestu máli er að sæka stig fyrir liðið,“ sagði Hilmar hógværðin uppmáluð. 

 

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira