Innlent

Nágrannar björguðu konu úr brennandi húsi á Kjalarnesi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Auk konunnar var tveimur köttum bjargað úr íbúðinni.
Auk konunnar var tveimur köttum bjargað úr íbúðinni. Vísir/Vilhelm
Kona var flutt á slysadeild vegna gruns um reykeitrun eftir að eldur kom upp í íbúðarhúsi á Kjalarnesi í morgun. Nágrannar hjálpuðu konunni út um eldhúsglugga á síðustu stundu, að sögn aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

„Það kom tilkynning rétt fyrir klukkan sjö um eld á Kjalarnesi. Það er nágranni á efri hæð sem tilkynnir um eld á neðri hæð. Hann verður var við reyk og hleypur niður. Hann vekur íbúa þar inni, henni var bjargað út um glugga á síðustu stundu,“ segir Sigurjón Hendriksson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi.

Sigurjón segir að konan hafi fundið vel fyrir hitanum af eldinum og sóti sömuleiðis. Ekki er talið að hún sé alvarlega slösuð en Sigurjón segir að það hafi staðið tæpt.

Gekk vel að slökkva eldinn

Fleiri nágrannar komu sem aðstoðuðu við að koma konunni út um glugga og höfðu slökkvistörf, bæði með slökkvitækjum úr heimahúsum og garðslöngu. Eldurinn hafi að megninu til verið í kjallara hússins og að slökkvistarf hafi gengið vel þegar slökkvilið bar að garði.

„Þeir voru mjög fljótir að slökkva eftir að nágrannarnir voru þarna búnir að nota þarna nokkur slökkvitæki og sprauta með garðslöngunni. Það var auðvelt að hemja eldinn.“

Auk konunnar voru tveir kettir inni í íbúðinni sem reykkafarar björguðu úr íbúðinni. Þriðji kötturinn kom sér sjálfur út, að sögn Sigurjóns.

Ekki er vitað um eldsupptök og rannsókn stendur yfir en að sögn Sigurjóns var eldurinn fyrst og fremst í eldhúsi íbúðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×