Fótbolti

Töpuðu veðmáli og þurftu að kvelja belgísk eyru með frönskum fótboltasöng

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eden Hazard á leið í grasið eftir draugabrotið hans Oliver Giroud.
Eden Hazard á leið í grasið eftir draugabrotið hans Oliver Giroud. Vísir/Getty
Frakkar unnu Belga 1-0 í undanúrslitaleik HM í Rússlandi í gær og tryggðu sér þar með sæti í úrslitaleiknum í Moskvu á sunnudaginn.

Það var aðeins meira undir í þessum leik fyrir farþega með neðarjarðarlestinni í Brussel, höfuðborgar Belgíu.

Belgar voru í sínum fyrsta undanúrslitaleik á HM í 32 (HM í Mexíkó 1986) og áttu möguleika á því að komast í sinn fyrsta úrslitaleik í sögunni.

Belgarnir voru nokkuð sigurrefir fyrir leikinn enda belgíska liðið búið að vinna alla fimm leiki sína á mótinu og belgíska liðið hafði auk þess leikið 23 leiki í röð án þess að tapa.

Yfirmenn hjá Brusselse metro voru því tilbúnir að veðja við kollega sína hjá Métropolitain de Paris.

Brussel-menn töpuðu og þurftu því að spila franska stuðningsmannasönginn, „Tous Ensemble”, í hátalarakerfi neðarlestarstöðva sinna í dag. Brusselse metro pirruðu örugglega gesti sína með þessu enda heimamenn ennþá að sleikja sárin eftir sárgrætilegt tap kvöldið áður.







Hefðu Frakkarnir tapað þá hefðu þeir þurft að breyta nafni lestarstöðvarinnar „Saint-Lazare“ í  „Saint Hazard“ til heiðurs fyrirliða og aðalstjörnu belgíska landsliðsins, Eden Hazard.

Svo fór ekki og því þurftu belgískir lestarfarþegar að hlusta á franska lagið „Tous Ensemble” með Johnny Hallyday í dag.

Fyrir áhugasama þá má hlusta á lagið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×