Fótbolti

Ísland ástæðan fyrir því að Króatía gæti náð einstökum árangri í HM-sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson lætur Dejan Lovren finna fyrir sér í leik liðanna á Laugardalsvelli fyrir rúmu ári.
Gylfi Þór Sigurðsson lætur Dejan Lovren finna fyrir sér í leik liðanna á Laugardalsvelli fyrir rúmu ári. Vísir/Ernir

Króatar, góðkunningjar íslenska fótboltalandsliðsins, eru komnir alla leið í úrslitaleikinn á HM í Rússlandi eftir sigur á enska landsliðinu í gær.

Ísland var tvisvar á vegi Króata á leið þeirra í þennan úrslitaleik, fyrst í undankeppninni og svo aftur í riðlakeppninni á mótinu sjálfu.

Það er einmitt árangur íslenska liðsins á móti Króatíu í undankeppninni sem gæti hjálpað Króötum að ná einstökum árangri í HM-sögunni.

Króatar eru nefnilega aðeins annað liðið í sögu HM sem kemst alla leið í úrslitaleikinn án þess að hafa verið fyrst í sínum riðli í undankeppninni.
Íslenska landsliðið vann riðilinn sinn þökk sé góðum endaspretti og 1-0 sigri á Króötum á Laugardalsvellinum sumarið 2017.

Króatar þurftu því að fara í umspilið þar sem þeir tryggðu sér farseðilinn til Rússlands með sigri á Grikkjum.

Aðeins eitt annað lið hefur komist alla leið í úrslitaleikinn án þess að hafa unnið sinn riðil í undankeppninni.

Þjóðverjar gerðu slík í HM-keppninni 2002 sem fór fram í Japan og Suður-Kóreu. Þýska liðið tapaði hinsvegar 2-0 í úrslitaleiknum á móti Ronaldo og félögum í brasilíska landsliðinu.

Þýska landsliðið varð í 2. sæti í sínum riðli í undankeppni HM 2002 en þann riðil unnu Englendingar. Þjóðverjar slógu Úkraínu út í umspilinu.

Króatar geta því, þökk sé íslenska landsliðinu, skrifað nýjan kafla í HM-sögunni vinni þeir heimsmeistaratitilinn á sunnudaginn. Ekkert lið hefur unnið heimsmeistaratitilinn án þess að hafa unnið sinn riðil í undankeppninni.

Króatísku leikmennirnir eru þegar búnir að ná sögulegum árangri í króatískri knattspyrnu með því að komast í sinn fyrsta úrslitaleik á stórmóti.

Hvort þeir fari alla leið á móti gríðarlega sterku frönsku liði kemur síðan í ljós í Moskvu eftir þrjá daga.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.