Innlent

Forgangsakstur fær að fara yfir lokaða Ölfusárbrú

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Svanur Bjarnason, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar í Suðursvæði
Svanur Bjarnason, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar í Suðursvæði Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það mun koma sér afar illa fyrir marga þegar Ölfusárbrú við Selfoss verður lokað í um viku um miðjan ágúst en um sautján þúsund bílar fara yfir brúnna á hverjum sólarhring. Svanur Bjarnason, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar segir að ekki verið komist hjá því að loka brúnni í svona langan tíma  á meðan nýtt brúargólf verður steypt.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni þá er ætlunin að loka brúnni á miðnætti 12. ágúst., opna hana svona aftur kl. 06:00 að morgni 13. ágúst og hafa opið til 20:00 þann dag, eða þar til að brúnni verður alveg lokað til 20. ágúst.

„Það á að laga slitgólf brúarinnar því það eru komin mjög mikil hjólför  í gólfið sem eru 40 til 50 millimetrar og farin að nálgast járnin í brúnni.  Það þarf að fræsa upp gólfið og steypa nýtt slitlag“, segir Svanur.

Um sautján þúsund bílar aka yfir Ölfusárbrú við Selfoss á hverjum sólarhring Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson

En er ekki slæm staða að þurfa að loka brúnni í svona langan tíma ?

„Það er bara mjög slæmt og kemur ábyggilega illa við marga en það er bara algjörlega óhjákvæmilegt að gera þetta. Ég skal ekki segja til um það hvort þetta sé rétti tíminn en þetta þarf að gerast að sumarlagi. Við teljum rétta að gera þetta áður en skólar byrja, já, ég held að þetta sé nálægt því að vera rétti tíminn“, bætir Svanur við.

Margir hafa spurt sig eftir að fréttist af vikulokuninni hvernig færi með lögreglu og sjúkrabíla sem væru í forgangsakstri, komast þeir yfir brúnna þrátt fyrir að hún verði lokuð ?

„Já, við ætlum að reyna að finna lausnir til þess en það verður væntanlega þannig að við tökum handriðið af við gönguleiðina yfir brúnna þannig að bílarnir fá þá að keyra gönguleiðina. Við verðum með vakt á brúnni í þannig tilfellum svo enginn annar keyri  yfir“, segir Svanur enn fremur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.