Fótbolti

Giggs: Þráhyggja Ronaldo kom honum til Juventus

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Númeró únó, að sjálfsögðu.
Númeró únó, að sjálfsögðu. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo gengur brátt formlega í raðir Juventus á Ítalíu en allt er klappað og klárt í Tórínó fyrir afjúpun á besta fótboltamanni heims í dag.

Ronaldo er 33 ára en kostar Juventus engu að síður 100 milljónir evra. „Gamla konan“ hefur ekki unnið Meistaradeildina í 22 ár og vonast til þess að fimmfaldi Evrópumeistarinn geti komið liðinu alla leið.

Ryan Giggs, fyrrverandi samherji Ronaldo hjá Manchester United, segir Ronaldo hafa gríðarlegan metnað fyrir því að vera sá besti í heimi og vera minnst sem betri leikmanns en Lionel Messi og því hafi hann ákveðið að taka þetta skref.

„Þetta kom mér á óvart. Það kom mér á óvart að hann færi frá Real Madrid til Ítalíu,“ sagði Giggs í myndveri ITV.

„Þetta er mikil áskorun fyrir Ronaldo en Juventus er risastórt félag. Það er ekki slæmt að vera með Manchester United, Real Madrid og Juventus á ferilskránni. Þetta verður áskorun fyrir 33 ára gamlan mann.“

Ronaldo er svo ákveðinn í því að vera talinn betri en Messi að það er orðið að þráhyggju, segir Walesverjinn.

„Hann þráir að vera betri en Messi. Ronaldo vann á Englandi, Spáni og núna ætlar hann að vinna á Ítalíu. Hann vann einnig með portúgalska landsliðinu. Þetta eru kannski hans rök þegar hann spyr sjálfan sig hvort hann er betri en Messi,“ sagði Ryan Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×