Innlent

Yfirgefnir kópar urðu heimalningar í Húsey

Kristján Már Unnarsson skrifar
Arney Arnardóttir, 16 ára. Kóparnir Villingur og Sölvi svamla í tjörninni fyrir aftan.
Arney Arnardóttir, 16 ára. Kóparnir Villingur og Sölvi svamla í tjörninni fyrir aftan. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Tveir kópar eru orðnir heimilisdýr á bænum Húsey við Héraðsflóa. Heimasætan á bænum segir þá líkari hundum en köttum. Þetta mátti sjá í fréttum Stöðvar 2. 

Húsey gæti verið eini staðurinn í heiminum þar sem ferðamönnum býðst að fara í selaskoðun á hestbaki en þar rekur Laufey Ólafsdóttir farfuglaheimili ásamt börnum sínum, Erni og Arney, sem eru sextán og nítján ára. Þar ríða þau með gesti meðfram fljótunum tveimur, Lagarfljóti og Jökulsá. 

„Og oftast getum við sýnt fólki seli. Það er mjög sjaldan sem fólk sér ekki sel þegar það kemur í Húsey,“ segir ferðaþjónustubóndinn Laufey.

Fjölskyldan á bænum Húsey. Laufey Ólafsdóttir með börnum sínum, Erni Arnarsyni 19 ára, og Arney Arnardóttur 16 ára.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Ferðamenn hrífast af kópunum tveimur sem svamla um í tjörninni við bæinn. Arney tók kópana að sér í fóstur eftir að þeir fundust yfirgefnir í vor. 

„Kæpurnar, eða mömmur þeirra, yfirgáfu þá þegar þeir voru litlir og við fundum þá, eina og yfirgefna í ánni,“ segir Arney. 

Þau höfðu raunar lent í þessu áður og kunnu því að ala kópa. Arney segir að þeim hafi fyrsta mánuðinn verið gefin mjólk en einnig rjómi, smjör og lýsi, en nú séu þeir farnir að fá síld. 

Og nú í sumar eru kóparnir hafðir sem heimilisdýr í Húsey. 

„Þeir eru bara eins og börnin þín, eða heimalningarnir þínir. Þeir elta mann út um allt og eru mjög mannelskir, - en bara við einn eða tvo sem þeir vilja tengjast.“

Arney með annan kópinn í fanginu.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Sá dekkri heitir Villingur en sá ljósi Sölvi. Arney segir þá hafa persónuleika. 

„Villingur til dæmis, hann er kúrudýr, - vill að maður klóri sér og kúri hjá honum. En Sölvi er svolítið svona aðeins efins.“ 

-Eru þetta skynsamar skepnur? 

„Já, ég held að þeir séu bara nokkuð skynsamir. Þeir eru allavega mjög þrjóskir,“ segir Arney og í samanburði við hunda og ketti segir hún þá líkari hundum. 

Þetta verður hins vegar bara sumardvöl hjá kópunum í Húsey. Í lok ágústmánaðar er ætlunin að sleppa þeim.

„Við stefnum að því að sleppa þeim út í Lagarfljót og vonum bara að þeir bjargi sér.“

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×