Körfubolti

Þriðji skellur strákanna í Þýskalandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir hlýða á þjóðsönginn í Þýskalandi í dag.
Strákarnir hlýða á þjóðsönginn í Þýskalandi í dag.
Íslenska landsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri þurfti að sætta sig við stóra tapið á Evrópumeistaramótinu í dag þegar að liðið lá í valnum gegn Ítalíu, 81-56.

Íslensku strákarnir voru 42-28 undir í hálfleik og skoruðu svo aðeins sjö stig í þriðja leikhluta. Þeir unnu fjórða leikhlutann með fjórum stigum, 21-17, en töpuðu á endanum með 25 stiga mun.

Ísland er í A-deild EM í annað sinn en í fyrra komust okkar strákar í átta liða úrslitin. Þrátt fyrir að hafna í neðsta sæti riðilsins þetta árið fer liðið í 16 liða úrslitin sem fram fara á miðvikudaginn.

Strákarnir ungu töpuðu öllum þremur leikjum riðilsins, fyrst með 47 stiga mun fyrir Serbíu, 107-60, og þurftu svo að sætta sig við 27 stiga tap, 91-64, fyrir Svíþjóð á sunnudaginn áður en þeir töpuðu svo með 25 stigum fyrir Ítalíu í dag.

Njarðvíkingurinn Jón Arnór Sverrisson var stigahæstur íslenska liðsins í dag með ellefu stig auk þess sem að hann gaf þrjár stoðsendingar en Sigurkarl Róbert Jóhannesson úr ÍR skoraði sjö stig og tók tvö fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×