Innlent

Segir mál Egils gegn Inga Kristjáni hafa verið stóra málið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson minnir á að málið hafi að mestum hluta unnist í Hæstarétti. Niðurstaðan í Strassborg komi ekki á óvart en það sé ákveðinn sigur að dómstóllinn hafi tekið það fyrir.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson minnir á að málið hafi að mestum hluta unnist í Hæstarétti. Niðurstaðan í Strassborg komi ekki á óvart en það sé ákveðinn sigur að dómstóllinn hafi tekið það fyrir. Vísir/Gunnar.V. Andrésson
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Egils Einarssonar sem tapaði í morgun máli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, segir ákveðinn sigur hafa falist í því að dómstóllinn tók máls Egils fyrir. Um einskonar hliðarmál hafi verið að ræða sem ákveðið hafi verið að fá álit Mannréttindadómstólsins á. Stóra málið, „rapist bastard“ málið svokallaða, vannst fyrir dómstólnum í nóvember síðastliðnum.

Eins og Vísir greindi frá í morgun féllst Mannréttindadómstóll Evrópu ekki á að íslenska ríkið hefði brotið gegn Agli Einarssyni með dómum sínum í héraði og Hæstarétti í meiðyrðamáli sem Egill höfðaði gegn Sunnu Ben Guðrúnardóttur. Héraðsdómur og Hæstiréttur dæmdu ummæli Sunnu Ben dauð og ómerk en féllust ekki á kröfu Egils um miskabætur, að Sunna þyrfti að standa kostnað af birtingu dómsniðurstöðu í fjölmiðlum og að Egill þyrfti að greiða málskostnað.

Ómerktu ummælin aðalatriðið

„Málið vannst að stærstum hluta í Hæstarétti. Það er ekki hlutverk Mannréttindadómstólsins að endurskoða niðurstöðu Hæstaréttar,“ sagði Vilhjálmur. Hann segir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins unað.



„Ég er ánægður með að málið hafi verið tekið til skoðunar því fæst mál ná svo langt,“ segir Vilhjálmur.

„Aðalatriðið var alltaf það að ummælin voru dæmd dauð og ómerk.“

Ólíkt því sem var í morgun komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu í nóvember að dómar íslenskra dómstóla í máli Egils gegn Inga Kristjáni Sigurmarssyni hefðu verið brot á áttundu grein mannréttindasáttmálans.

„Það mál var það sem skipti langmestu máli í Strassborg, og það vannst.“


Tengdar fréttir

Íslenska ríkið braut á mannréttindum Egils

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að dómur Hæstaréttar í máli Egils Einarssonar, betur þekktur sem Gillzenegger, gegn Inga Kristjáni Sigurmarssyni hafi verið brot á áttundu grein mannréttindasáttmálans.

Egill „Gillz“ áfrýjar í meiðyrðamálum

Egill Einarsson hefur áfrýjað dómi Hérðaðsdóms Reykjavíkur sem féll í meiðyrðarmálum í fyrra. Lögmaður Egils segir dómana í ósamræmi við annan dóm sem féll skömmu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×