Körfubolti

Emil Barja genginn til liðs við Íslandsmeistarana

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Emil Barja er kominn í KR. Frá blaðamannafundinum í dag.
Emil Barja er kominn í KR. Frá blaðamannafundinum í dag. Vísir/ástrós
Emil Barja mun spila með Íslandsmeisturum KR á næstu leiktíð í Domino's deild karla. Hann var kynntur til leiks sem nýr leikmaður KR á blaðamannafundi í Vesturbænum í dag.

Emil kemur til KR frá Haukum þar sem hann hefur verið fyrirliði liðsins síðustu ár. Haukar duttu út í undanúrslitum 1-3 gegn KR síðasta vetur eftir að hafa orðið deildarmeistarar.

Síðasta vetur skoraði Emil 9,1 stig að meðaltali í 31 leik. Hann tók 6,1 frákast og gaf 4,6 stoðsendingar. Samningurinn gildir í tvö ár.

Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi KR frá liðinu sem vann fimmta Íslandsmeistaratitilinn í röð í vor. Brynjar Þór Björnsson er farinn til Tindastóls, Darri Hilmarsson og Kristófer Acox farnir erlendis og þá er kominn nýr þjálfari í brúnna, Ingi Þór Steinþórsson tók við starfi Finns Freys Stefánssonar.

Við sama tilefni skrifaði Björn Kristjánsson undir framlengingu á samningi sínum við KR. Samningur hans er til tveggja ára.

Íslandsmeistararnir hefja titilvörn sína gegn nýliðum Skallagríms á heimavelli 4. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×