Viðskipti innlent

11 milljarða kaup TM á Lykli úr sögunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ekkert verður af kaupunum.
Ekkert verður af kaupunum. Fréttablaðið/Anton Brink
Fallið hefur verið frá einkaviðræðum Tryggingamiðstöðvarinnar um kaup á fjármálafyrirtækinu Lykli fjármögnun. Þetta kemur fram í tilkynningu TM til Kauphallarinnar í dag. TM tilkynnti þann 22. júní að félagið hefði lagt fram skuldbindandi kauptilboð í alla hluti í Lykli. Þann 6. júlí tilkynnti TM að seljandi hlutanna, Klakki ehf., hafi ákveðið að hefja einkaviðræður við TM um kaupin.

„Samkomulag hefur nú orðið með aðilum um að falla frá viðræðunum og verður því ekki af kaupum TM á umræddu fyrirtæki,“ segir í tilkynningunni.

Lykill er fjármögnunarfyrirtæki sem lánar til fyrirtækja og einstaklinga fyrir kaupum þeirra á bílum, vélum og tækjum. Í árslok 2017 var eigið fé Lykils 13 milljarðar og heildareignir tæpir 32 milljarðar að því er fram kom í fyrri tilkynningu TM.

Kauptilboðið, sem nam 10,6 milljörðum króna, var háð ýmsum fyrirvörum, svo sem um áreiðanleikakönnun og niðurstöðu hennar, samþykki Fjármálaeftirlitsins um að TM mætti fara með virkan eignarhlut í hinu selda félagi og að Samkeppniseftirlitið samþykkti hið nýja eignarhald.


Tengdar fréttir

TM vill kaupa Lykil fyrir 10,6 milljarða

Tryggingamiðstöðin hefur lagt fram skuldbindandi kauptilboð í alla hluti í Lykli fjármögnun hf. Kauptilboðið nemur 10,6 milljörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×