Körfubolti

Höfum tekið miklum framförum í þessari undankeppni

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Craig Pedersen landsliðsþjálfari.
Craig Pedersen landsliðsþjálfari.
Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, var skiljanlega afar svekktur þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til hans í gærkvöldi. Tap gegn heimamönnum gerði út um vonir Íslands á að komast á HM.

„Augljóslega eru allir afar svekktir en við gerðum margt jákvætt í dag, fengum mörg góð skot en náðum ekki að refsa þeim þegar færi gáfust. Við lokuðum oft vel á þá og komumst yfir en þeir hittu vel. Við hefðum þurft að nýta okkar færi til að geta unnið lið af þessum styrkleika.“

Hann segir að liðið hafi liðið fyrir skort á reynslu á lokaleikhlutanum en Ísland lék án Jóns Arnórs Stefánssonar og Pavels Ermolinskij í þessum leikjum.

„Við vorum inni í báðum leikjunum í fjórða leikhluta en á lokasprettinum hrundi leikur okkar. Það sást í febrúar hvað leikmenn eins og Jón Arnór og Pavel gera fyrir þetta lið. Jón er auðvitað, líkt og Pavel, frábær varnarmaður en hann tekur pressu af Martini í sóknarleiknum,“ segir Craig sem er ánægður með framlag Jóns Axels Guðmundssonar sem fékk í fyrsta sinn stórt hlutverk í keppnisleik.

„Hann er stór og sterkur af bakverði að vera sem gerir okkur auðveldara fyrir í vörn, hann kann að spila gegn stærri leikmönnum ásamt því að vera góður sóknarmaður.“

Craig segir að hann sé strax farinn að hugsa að því komast á Euro­basket 2021.

„Ég er með samning hjá KKÍ og er afar metnaðargjarn fyrir þennan hóp sem er að koma upp hjá landsliðinu. Við vorum með augastað á EuroBasket 2021 og höfum tekið miklum framförum sem sést kannski ekki endilega á stigatöflunni. Það er margt sem má bæta og við munum vinna í því að bæta okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×