Lífið

Íslenski fáninn miðpunktur enn eins fánaklúðurs rúmenskra embættismanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Borgarstjórinn í Buzau ásamt sendiherra Bretlands í Rúmeníu.
Borgarstjórinn í Buzau ásamt sendiherra Bretlands í Rúmeníu. Vísir
Eitthvað virðast þjóðfánar Evrópuríkja vefjast fyrir rúmenskum embættismönnum. Íslenski fáninn var miðpunktur eins af þremur fánaklúðrum þeirra á skömmum tíma.

Fjallað er um málið á vef Euronews og þar er vakin athygli á því að á fundi borgarstjóra rúmensku borgarinnar Buzau og Paul Brummell, sendiherra Bretlands í Rúmeníu var íslenski fánanum komið fyrir á borðinu á skrifstofu borgarstjórans.

Svo virðist sem að einhver hafi ruglast á íslenska fánanum og hinum breska enda um samskonar liti að ræða.

Þetta er ekki eina fánaklúðrið sem tengist sendiherra Bretlands í Rúmeníu en á fundi hans með rúmenskum embættismönnum fyrir tveimur vikum stilltu þeir upp útgáfu af breska fánanum sem ekki hefur verið notuð í yfir tvö hundruð árum.

Var það aðeins degi eftir að Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, þurfti að snúa við fána Eistlands sem flaggað var honum til heiðurs er hann kom til opinberrar heimsóknar í Rúmeníu í síðasta mánuði. Var fánanum flaggað á hvolfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×