Innlent

Ljósmæður felldu tólf prósenta hækkun

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ráðherra, landlæknir og fulltrúar Landspítalans komu fyrir velferðarnefnd á fundi hennar í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR
Ráðherra, landlæknir og fulltrúar Landspítalans komu fyrir velferðarnefnd á fundi hennar í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR
Kjarasamningur ljósmæðra við ríkið, sem felldur var af félagsmönnum í síðasta mánuði, fól í sér um tólf prósenta launahækkun þegar allt er talið saman. Þá var samningurinn afturvirkur um níu mánuði. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Umræddur samningur fól í sér rúmlega 4,2 prósenta miðlæga launahækkun auk nokkurra bókana. Sú helsta fól í sér um sextíu milljóna króna innspýtingu frá heilbrigðis­ráðuneytinu. Hluti bókananna hefði skilað sér í frekari hækkunum en þessi hefði skilað sé misjafnlega til félagsmanna. Samningurinn var felldur af félagsmönnum með 63 prósentum atkvæða en þriðjungur vildi samþykkja hann.

Fyrr á þessu ári samdi hluti aðildarfélaga BHM, en Ljósmæðrafélag Íslands á aðild að bandalaginu, við ríkið. Sá samningur fól í sér ríflega tveggja prósenta afturvirka hækkun til sex mánaða auk þess að laun hækkuðu á ný um tvö prósent í upphafi júní.

Að sögn heimildarmanna Fréttablaðsins var samningurinn þess eðlis að óttast var að hann hefði áhrif á samninga BHM þar sem hækkun ljósmæðra væri umtalsvert meiri en annarra aðildarfélaga bandalagsins. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, vildi ekki tjá sig um orðróminn eða stöðuna í kjaradeilu ljósmæðra þegar Fréttablaðið leitaði eftir því.

Samninganefnd ljósmæðra hefur ekki sagt frá því hvaða kröfur hún hefur uppi við gagnaðila sinn nú og sagt að trúnaður ríki um það sem fram fer á fundum. Fjármálaráðuneytið birti í gær tölur þar sem farið er yfir kjör ljósmæðra á undanförnum árum.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir er sögð hafa talað gegn samningnum.VÍSIR/EYÞÓR
Þar segir að meðalheildarlaun ljósmæðra séu með því hæsta sem þekkist innan BHM og að meðaldagvinnulaun stéttarinnar hafi hækkað um fram hjúkrunarfræðinga og önnur aðildarfélög bandalagsins. Þá sagði fjármálaráðherra að hann gerði ekki athugasemdir við að kröfurnar yrðu gerðar opinberar.

Fréttablaðið hefur rætt við nokkrar ljósmæður um samninginn sem felldur var. Sumar þeirra höfðu á orði að kynningin á samningnum hefði ekki verið eins og best verður á kosið í ljósi þess hve ofboðslega flókinn hann var. Þá hafi formaður samninganefndarinnar talað gegn honum. Ný nefnd var skipuð eftir að samningurinn var felldur.

Ekki náðist í samninganefndarfulltrúa ljósmæðra í gær til að bera efni fréttarinnar undir þá og spyrja út í afstöðu þeirra til yfirlýsingar fjármálaráðuneytisins þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir.

Ljósmæður hafa boðað til yfirvinnubanns sem mun taka gildi um miðjan mánuðinn ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Bannið kemur til með að hafa mikil áhrif ef af því verður en ástandið er víða slæmt fyrir og vaktir keyrðar áfram með neyðarmönnun.

Velferðarnefnd Alþingis kom saman í gær vegna stöðunnar sem komin er upp. Á fundinn mættu, auk nefndarmanna, heilbrigðisráðherra, landlæknir og fulltrúar Landspítalans. Guðjón S. Brjánsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, lagði fram bókun á fundinum þar sem skorað er á stjórnvöld að leiðrétta kjör ljósmæðra.

„Staðan sem komin er upp er grafalvarleg og við megum engan tíma missa,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að fundi loknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×