Erlent

Hvítabjörn drap Kanadamann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Björninn var síðan skotinn til bana.
Björninn var síðan skotinn til bana. BBC
Kanadískur karlmaður lést eftir samskipti sín við hvítabjörn í norðurhluta landsins á þriðjudag. Maðurinn er sagður hafa fórnað lífi sínu svo að börnin hans gætu komist undan.

Hinn 31 árs gamli Aaron Gibbons var ásamt börnum sínum á Sentry Island, vinsælu veiðisvæði í héraðinu Nunavut, vestan af Hudson-flóa þann 3. júlí síðastliðinn. Þar rákust þau á hvítabjörninn og er Gibbons sagður hafa hvatt börn sín til að flýja á meðan hann fangaði athygli bjarnarins.

Börnin komust undan en Gibbons lést eftir að björninn réðst á hann. Síðar um daginn kom veiðimaður og skaut björninn til bana.

Á vef breska ríkisútvarpsins er Gibbons lýst sem hetju. Hann hafi verið óvopnaður og brugðið illilega þegar hann sá hvítabjörninn hlaupa í átt að börnunum sínum. Dóttir hans, sem var með honum í för, hljóp að báti fjölskyldunnar og náði að hringja á hjálp.

Andlát Gibbons er sagt mikið áfall í heimabæ hans Arviat, sem er í um 10 kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem maðurinn lést. Hvítabirnir eru algeng sjón á þessum slóðum, ekki síst á þessum árstíma þegar þeir halda norður á bóginn.

Talið er að um 840 hvítabirnir lifi villtir nærri bænum. Íbúar Arviat hafa lýst yfir áhyggjum af öryggi sínu vegna fjöldans en síðast lést maður eftir samskipti sín við hvítabjörn í héraðinu árið 2000. Þá er talið að tíðar heimsóknir ferðamanna, sem gagngert koma til að skoða birnina, hafi gert dýrin vanari mönnum - og þar af leiðandi eru þau síður hrædd við menn. Það kunni að skýra árásargirni þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×