Erlent

Góðgerðastofnun Móður Teresu seldi börn

Kjartan Kjartansson skrifar
Nunnur frá Trúboðum kærleikans á bæn.
Nunnur frá Trúboðum kærleikans á bæn. Vísir/EPA
Lögreglan á Indlandi hefur handtekið konu sem vinnur fyrir góðgerðasamtök Móður Teresu vegna gruns um að hún hafi selt fjórtán daga gamalt barn. Tvær aðrar konur sem vinna fyrir samtökin hafa einnig verið handtekin vegna gruns fleiri slík tilfelli.

Barnaverndarnefnd í Jharkhand-héraði á austurhluta Indlands tilkynnti möguleg brot starfsmanna Trúboða kærleikans, góðgerðasamtaka nunnunnar umdeildu sem lést árið 1997. Fulltrúi nefndarinnar segir að nýfætt barn hafi verið selt pari í Uttar Pradesh en þeim hafi verið sagt að féð væri til að greiða fyrir sjúkrahúskostnað. 

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir lögreglunni að samtökin hafi selt fleiri börn með ólögmætum hætti. Lögreglan hafi fengið nöfn mæðra barnanna og rannsókn sé í gangi.

Trúboðar kærleikans reka miðstöðvar fyrir ógiftar óléttar konur um allt Indland. Miðstöðvarnar hættu að annast ættleiðingar fyrir þremur árum þegar þær gátu ekki lengur staðist ákvæði nýrra laga um ættleiðingar. Móðir barnsins sem var selt leitaði á náðir samtakanna í mars en barnið var selt í maí.

Barnaverndarnefndin segist hafa fært þrettán verðandi mæður sem hafa dvalið í miðstöð samtakanna í borginni Ranchi annað.

Þekkt er að ólögleg viðskipti með börn viðgangast á Indlandi, meðal annars vegna strangra laga um ættleiðingar og langra biðlista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×