Innlent

Skortur á hjúkrunarfræðingum leiðir til lokunar Hjartagáttar í júlí

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðamóttöku Landspítala
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðamóttöku Landspítala Vísir/Stöð 2
Bráðaþjónusta Hjartagáttar Landspítala verður flutt frá Hringbraut til bráðadeildar í Fossvogi í 4 vikur í sumar frá og með deginum í dag. Deildin verður aftur opnuð við Hringbraut þann 3. ágúst næstkomandi.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala, segir lokunina koma til vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.

„Það er semsé fyrir ekki fullmannað á Hjartagáttinni og svo bættust við sumarleyfi sem gerðu það að verkum að það hreinlega var ekki hægt að hafa deildina opna vegna skorts á hjúkrunarfræðingum,“ segir Jón Magnús í samtali við Vísi.

Jón Magnús segir að álag á hjartagáttinni minnki ekki yfir sumartímann. Yfirleitt sé heldur meira að gera á sumrin, meðal annars vegna fjölda ferðamanna á Íslandi.

Hann segir að hjúkrunarfræðingum og læknum á bráðadeild hafi verið fjölgað til að komast til móts við aukið álag vegna lokunarinnar

„Við búumst við að það verði nokkuð aukið álag á bráðamóttökunni í Fossvogi þennan mánuð. Þetta er um það bil 20-25 prósent aukning á fjölda sjúklinga sem við búumst við hér þennan mánuð miðað við venjulegan dag,“ segir Jón Magnús.

„Við höfum svosem brugðist við því með því að auka við vaktir hjúkrunarfræðinga og lækna hér í staðinn. Við erum búin að gera allt sem við getum til að tryggja öryggi sjúklinga og að þetta takist. Við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af því að fyrir er þröngt á bráðadeildinni. Við höfum áhyggjur af því að rýmið sem við höfum, skoðunarstofur og rúm, hvort það dugi til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×