Erlent

Trump forðast Lundúnir í opinberri heimsókn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna ætlar nær algerlega að forðast höfuðborg Bretlands þegar hann kemur til landsins í næstu viku í opinbera heimsókn.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna ætlar nær algerlega að forðast höfuðborg Bretlands þegar hann kemur til landsins í næstu viku í opinbera heimsókn. Vísir/AP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna ætlar nær algerlega að forðast höfuðborg Bretlands þegar hann kemur til landsins í næstu viku í opinbera heimsókn. Þannig mun hann aðeins dvelja eina nótt í Lundúnum, nóttina sem hann kemur til landsins. Með þessu móti forðast hann fjöldamótmæli sem boðað hefur verið til í höfuðborginni vegna heimsóknarinnar. Rúmlega 50.000 manns hafa boðað komu sína á mótmælin og gert er ráð fyrir að þau verði stærst á föstudeginum.

Að sögn skipuleggjenda ætlar fólk að fylkja liði í Lundúnum og láta í ljós óánægju sína með meðferð hans á innflytjendum í Bandaríkjunum, með vísan til umdeildrar stefnu hans í innflytjendamálum „ekkert umburðarlyndi“. Þá eru margir mótmælendanna gagnrýnir á Bandaríkjaforseta og segja hann vera haldinn kynþáttafordómum og karlrembu.

Skipuleggjendur hafa hlotið öll tilskilin leyfi til þess að fljúga risavaxinni Trump-blöðru þar sem hann lítur út eins og smábarn yfir Lundúnir þegar hann kemur til borgarinnar.

Skipuleggjendur mótmælanna hafa fengið öll tilskilin leyfi fyrir blöðrunni.
Skipuleggjendur hafa safnað hátt í átján þúsund pundum, um 2,5 milljón króna til þess að búa til helíum fígúru sem þeir segja að tákni persónu Trump sem sé eins og reitt barn með brothætta sjálfsmynd og pínulitlar hendur.

Í stað þess að dvelja í Lundúnum hyggst Trump halda sig í öruggri fjarlægð á landsbyggðinni. Í heimsókninni er gert ráð fyrir að Trump ræði við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Hann hefur einnig verið boðaður á fund Elísabetar Bretlandsdrottningar í Windsor-kastalanum og þá hefur Trump einnig verið boðið til kvöldverðar að heimili fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Winstons Churchill.

Trump ætlar að dvelja í Skotlandi um helgina. Nánar verður greint frá ferðum forsetans um Skotland þegar nær dregur að sögn talsmanna hans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×