Innlent

Þurfti frá að hverfa í "Grafreit draumanna“

Andri Eysteinsson skrifar
Jón Kristinn synti 47 kílómetra við erfiðar aðstæður.
Jón Kristinn synti 47 kílómetra við erfiðar aðstæður. Mynd/Jóhannes Jónsson
Sundkappinn Jón Kristinn Þórsson sem hugðist synda yfir Ermasund, milli Englands og Frakklands, þurfti eftir hetjulega baráttu frá að hverfa á svæðinu sem kallað er Grafreitur draumanna.

Á þeim slóðum eru sjávarföllin gríðarlega sterk og reynist það mörgun sundköppum ofviða. Jón hafði áður en kom að svæðinu synt 47 kílómetra á 14 klukkustundum.

Jón Kristinn er vanur sjósundi en hann hefur t.a.m. synt Drangeyjarsund og frá Vestmannaeyjum til Landeyjarsands.

Jón lagði af stað frá Dover klukkan 5:28 að staðartíma og hafði gengið vel að sögn ferðafélaga Jóns, Jóhannesar Jónssonar. Jón lenti í miðjum marglyttuhóp um miðjan dag en synti klakklaust í gegn.

Svæðið nærri ströndu Frakklands sem kallað er Grafreitur draumanna er eingöngu 4 kílómetra frá landi en þar eru straumar svo sterkir að sundmenn synda oft tímunum saman án þess að færast nær landi.

Sjávarföllin reyndust Jóni of sterk í þetta sinn og þurfti hann því frá að hverfa.

Jón er við góða heilsu eftir þrekraunina og er á leið til baka til Dover í Englandi eftir hetjulega baráttu.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×